Innlent

2.800 umsóknir um störf flugliða

Freyr Bjarnason skrifar
Næsta sumar munu 130 flugliðar starfa hjá flugfélaginu WOW Air.
Næsta sumar munu 130 flugliðar starfa hjá flugfélaginu WOW Air.
Um 1.200 manns sóttu um sumarstörf flugliða (flugfreyjur og flugþjónar) hjá flugfélaginu WOW air en þau voru auglýst í nóvember. Fimmtíu til sextíu verða ráðnir.

Þetta er mikil aukning frá því á svipuðum tíma og í fyrra þegar átta hundruð sóttu um störf flugliða. „Það má eflaust rekja þennan áhuga til þess að síðasta haust fengum við flugrekstarleyfi og til þess að í lok maí höfum við flogið í tvö ár og erum því orðið eldra og reyndara flugfélag,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, spurð út í þennan mikla áhuga.

Um 1.600 manns sóttu um þau eitt hundrað störf flugliða sem voru í boði hjá Icelandair og 1.200 þreyttu inntökupróf. Samanlagt munu um sjö hundruð manns sinna flugliðastörfum hjá flugfélaginu næsta sumar sem eru fleiri en nokkru sinni fyrr.

Þrjú hundruð þeirra sem sóttu um störf flugliða hjá WOW air fara í inntökupróf í Háskólabíói á morgun og í kjölfarið munu viðtöl hefjast um miðjan mánuðinn. „Þetta er frekar þungt próf. Það er mikill reikningur í því. Þarna er verið að breyta yfir í aðra mynt og annað. Það þarf líka að hafa góða tungumálakunnáttu og almenna þekkingu,“ segir Svanhvít.

Í hópi þeirra sem sóttu um starfið eru lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, leikarar, kennarar, dansarar, verkfræðingar, tannlæknanemar og afreksfólk í íþróttum. Elsti umsækjandinn er fæddur 1953 en aðeins þeir sem eru fæddir 1992 og eldri máttu sækja um.

Fleiri karlmenn voru á meðal umsækjanda í ár, eða um tvö hundruð í samanburði við áttatíu í fyrra. „Það er ánægjulegt að fleiri karlmenn hafi lagt inn umsókn því við viljum endilega fá sem flesta karlmenn inn í þetta starf,“ segir Svanhvít en tæplega sextíu karlmenn munu þreyta inntökuprófið á morgun.

Næsta sumar munu starfa um 130 flugliðar hjá flugfélaginu. WOW air verður með fimm vélar í rekstri og mun fljúga til sautján áfangastaða. Gert er ráð fyrir um sex hundruð þúsund farþegum með flugfélaginu á þessu ári en í fyrra flaug það með 450 þúsund farþega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×