Innlent

Dýratilraunir hjá deCode og víðar

MYND/Getty

Dýratilraunir fara fram á nokkrum stöðum hér á landi, þar á meðal hjá Íslenskri erfðagreiningu sem notar mýs og rottur til framhaldsrannsókna.

Íslensk erfðagreining auglýsti í blöðum í gær eftir starfsmanni á dýratilraunastöð félagsins og segir í starfslýsingunni að starfið felist í aðstoð við dýratilraunir. Fær starfsmaður sérstaka þjálfun fyrir starfið en hann á meðal annars að hafa umsjón með tilraunadýrum. Menntun á sviði líffræði er sögð æskileg fyrir starfið og reynsla af vinnu við tilraunadýr eða á dýratilraunastöð er sögð kostur.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að félagið hafi komið upp dýratilraunastöð þegar í ljós hafi komið á sínum tíma að engin góð aðstaða hefði verið til slíks á Íslandi. Félagið vinni bæði með dýr og frumur í rannsóknum sem gerðar eru í framhaldi af uppgötvun á erfðavísum sem tengist tilteknum sjúkdómum. Þannig kanni menn áhrif lyfja sem félagið sé að þróa.

Tilraunir undir ströngu eftirliti

Kári segir enn fremur að noti fyrst og fremst mýs í tilraunir en einnig rottur. Íslensk erfðagreining sé undir ströngu eftirliti yfirdýralæknis vegna þessa og hafi sótt um leyfi til tilraunanna þar sem fram komi að þær samræmist mannúðlegum sjónarmiðum.

Kári segir tilraunirnar nauðsynlegar í starfi Íslenskrar erfðagreiningar en þær séu langt í frá umfangsmiklar. Aðspurður segir hann mýsnar keyptar erlendis frá en umfang rannsóknanna sé ekki það mikið að félagið hafi ráðist í að byggja upp undaneldisstöð eins og tíðkist erlendis.

Þá bendir Kári á að dýratilraunir fari fram á nokkrum stöðum hér á landi, þar á meðal að tilraunastöðinni að Keldum og við læknadeild Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×