Erlent

Biðin langa eftir aðstoð á Filippseyjum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Örmagna eftir að hafa beðið fjóra sólarhringa á flugvellinum í Tacloban eftir því að komast burt.
Örmagna eftir að hafa beðið fjóra sólarhringa á flugvellinum í Tacloban eftir því að komast burt.
3.621 er látinn, 1.140 er saknað og 12.166 særðir eftir hamfarirnar á Filippseyjum í lok síðustu viku, samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum þar og hjálparstofnunum.

Erfiðlega hefur gengið að koma aðstoð til allra, sem á þurfa að halda og hefur fólk sums staðar nú þurft að bíða í viku við kröpp kjör, jafnvel húsnæðislaust, án matvæla, drykkjarvatns og án læknishjálpar.

Athygli hjálparstofnana hefur beinst mjög að borginni Tacloban, sem varð verst úti í hamförunum, en afskekktari staðir hafa orðið útundan.

Þannig bíða íbúar í þorpinu Marabut enn eftir aðstoð. Bærinn er rústir einar og íbúar horfa til himins í hvert sinn sem þyrlur sjást sveima, en enn hefur engum pakka verið varpað niður þar.

„Okkur finnst við vera algerlega gleymd,” segir Mildred Labado, bæjarstjórnarmaður þar í þorpinu. 

Öll hús í þorpinu, nærri 16 þúsund, eyðilögðust með öllu, meira en tvö þúsund manns hlutu meiðsli, en enn er aðeins vitað til þess að 20 manns hafi látið lífið. Átta að auki er þó saknað.

Í öðru þorpi, Guiuan, hafa íbúarnir gripið til sinna ráða og reyna að bjarga sér, þótt aðstoð hafi enn ekki borist. Fólk er að hreinsa burt brak af götum bæjarins, smíða sér bráðabirgðaskýli úr tilfallandi efni og reyna að koma lífinu í nokkurn veginn eðlilegt horf - til bráðabirgða að minnsta kosti.

„Við erum hér ein og verðum að gera þetta á eigin spýtur,” hefur AP fréttastofan eftir Dionesio de la Cruz, fertugum bæjarbúa sem var í óða önn að smíða sér rúm. „Við búumst ekki við því að neinn komi að hjálpa okkur.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×