Innlent

Forsetinn mættur til leiks í Zagreb

Jakob Bjarnar skrifar
Ólafur Ragnar vill ekki spá fyrir um úrslit en segir að allt geti gerst í knattspyrnu.
Ólafur Ragnar vill ekki spá fyrir um úrslit en segir að allt geti gerst í knattspyrnu.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, breytti ferðaáætlunum sínum þar sem hann var staddur í Abu Dhabi, og er kominn til Zagreb til að fylgjast með viðureign Íslands og Króatíu í knattspyrnu.

Ólafur Ragnar er þekktur fyrir íþróttaáhuga sinn og frægt er þegar hann studdi íslenska handboltalandsliðið til dáða og sæmdi liðsmenn þess, í kjölfar frækilegrar framgöngu á ólympíuleikunum í Peking, orðu. Vísir náði tali af forsetanum á flugvellinum. Hvernig leggst þessi mikilvægi leikur í kvöld í forsetann?

Breytti ferðaáætlunum sínum

„Ég er, eins og allir Íslendingar, mjög spenntur fyrir þessum leik. Enda er hann afar sögulegur. Mér til efs að það hafi, í íslenskri knattspyrnusögu, verið mikilvægari leikur. Því að hann mun ráða því hvort við náum þessum sögulega áfanga sem ég held að fæsta hafi dreymt um hér áður fyrr í íslenskri knattspyrnu. Mér var hugsað til þess í morgun þegar ég var að leggja af stað frá Abu Dhabi til Zagreb, um miðja nótt, að fyrir okkur sem fórum á gamla Melavöllinn fyrir um hálfri öld eða svo; vorum þar í rokinu eða í litlu timburstúkunni og horfðum á Ríkharð Jónsson og aðra frá Akranesi vera að leika, þá hefði það virkað eins og ferð til tunglsins að íslenska landsliðið ætti möguleika á því að leika í einum leik til úrslita um það hvort það næði í þennan úrvalsflokk.“

Forsetinn minnir á leikinn við Frakka

Ólafur og Dorrit forsetafrú verða bæði á leiknum. Forsetinn ákvað að breyta sínum ferðaáætlunum heim til Íslands til að geta verið í Zagreb. „Og vaknaði klukkan tvö í nótt þar sem ég var í Abu Dhabi að stjórna fundi í dómnefnd orkuverðlaunanna, til þess að geta flogið í gegnum Búdapest og Doha og hingað til Zagreb.“

Ólafur Ragnar vill ekki spá fyrir um úrslit, segir það erfitt. „Nei, en það hafa margir skemmtilegir hlutir gerst í knattspyrnunni. Ég minni þig nú á það að þegar frönsku heimsmeistararnir komu til Íslands fyrir nokkrum árum, eftir að forseti Frakklands hafði sæmt þá alla sérstakri heiðursorðu í París, eftir að hafa orðið heimsmeistarar, þá náðum við nú jafntefli á Laugardalsvellinum. Við heimsmeistarana. Þannig að það sýnir nú að allt getur gerst í þessum efnum.“

Mikilvæg skilaboð

Forseti Íslands vonar að allir Íslendingar muni fylgjast með þessum leik. „Hvernig sem hann fer þá er hann stór stund í okkar íþróttasögu. Jafnast á við stærstu stundir undanfarinna ára hver sem úrslitin verða. En mér finnst líka mikilvægt að í leiknum eru skilaboð til ungs fólks á Íslandi. Krakkanna sem eru að byrja að spila fótbolta og æfa þúsundum saman út um allt land, að það er hægt með ástundun og atorku að ná í fremstu röð. Það eru mikilvæg skilaboð fyrir æskufólk í litlu landi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×