Innlent

Leitin að Matthíasi Mána: Tveir menn handteknir í nótt

Tveir karlmenn voru handteknir í nótt í tengslum við strok Matthíasar Mána af Litla-Hrauni. Þeim var sleppt að loknum yfirheyrslum. Lögreglan er engu nær um hvar strokufangann er að finna.



Mennirnir voru handteknir á Suðurlandi annar í heimahúsi en hinn í strætó. Arnar Rúnar Marteinsson er aðalvarðstjóri Lögreglunnar höfuðborgarsvæðinu sem stýrir leitinni.



„Við erum búin að vera að eltast við mjög margar vísbendingar og erum búin að loka mörgum lausum endum en í gær þá voru tveir handteknir í tengslum við rannsókn málsins, í gærkvöldi, en þeim var sleppt að loknum yfirheyrslum í nótt."



Mennirnir eru kunningjar Matthíasar.



„Við vorum búin að fá ábendingar um að þeir gætu vitað eitthvað um flóttann og væru hugsanlega tengdir honum Matthíasi og vissu eitthvað um málið."



Reyndist það ekki vera rétt?



„Nei það var allavega ekki til ástæða til að halda þeim frekar," segir hann.



Arnar segir enn hverfandi líkur taldar á því að Matthías hafi farið úr landi.



Þið teljið ekki að hann geti hafa farið sér að voða?



„Það er í rauninni ekkert útilokað í þeim efnum."



Hvernig verður leitinni háttað í dag hjá ykkur?



„Það verður áfram verið að eltast við vísbendingar. Við erum reyndar búin að svara fyrir, sem sagt að loka mörgum lausum endum, og kanna hérna kanna flest allar vísbendingar sem við höfum fengið, þannig að við erum í rauninni, hvað á ég að segja, við höfum eftir litlu að fara. Það hefur í rauninni fækkað þeim slóðum sem við getum verið að rekja."



Hverju gangið þið út frá núna eins og staðan er?



„Við erum ennþá bara sem sagt að eltast við vísbendingar en við erum náttúrulega búin að þrengja þetta svolítið mikið en satt að segja þá erum við bara svolítið blankir eins og er," segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×