Íslenski boltinn

Andri: Maður spilar sig ekki í form hjá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andri í leik með ÍBV sumarið 2012.
Andri í leik með ÍBV sumarið 2012. Vísir/Daníel
Andri Ólafsson gekk í gær til liðs við Grindavík og stefnir að því að koma sér aftur af stað þar eftir langvarandi meiðsli.

Andri fékk sig lausan frá þriggja ára samningi sínum við KR eftir síðasta tímabil en hann náði aldrei að spila með liðinu, hvorki í deild né bikar.

„Við töluðum saman eftir tímabilið í fyrra og þá stefndi í að ég yrði ekkert meira með. Enda er ég rétt að komast aftur af stað núna,“ sagði Andri í samtali við Vísi í gær.

„Við komumst því að samkomulagi að ég færi. Það var gert í góðu,“ bætti hann við.

„Það hefði ekki vertið sanngjarnt, hvorki gagnvart KR eða mér sjálfum, að halda áfram. Ég spilaði ekki í eina mínútu síðasta sumar og svo kemst ég ekki aftur af stað fyrr en í mars. Maður spilar sig ekki í form með KR.“

Andri leikur því í 1. deildinni með Grindavík í sumar en hann hefur farið hægt af stað á fyrstu æfingum sínum með félaginu.

„Ég er núna búinn að vera meiddur í tæp tvö ár og því er þetta vonandi orðið gott,“ sagði Andri en læknum hefur enn ekki tekist að greina meiðsli hans með nákvæmum hætti.

„Það er talið að þetta hafi verið eitthvað í bakinu sem leiddi niður í fætur. Það er auðvitað frekar leiðinlegt að vita ekki nákvæmlega hvað hafi verið að mér en þetta er vonandi búið núna.“


Tengdar fréttir

Andri til liðs við Grindavíkur

Eyjamaðurinn Andri Ólafsson er kominn til Grindavíkur eftir stutta dvöl hjá KR í vesturbæ Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×