Íslenski boltinn

Meirihluti Akureyringa vill sameina Þór og KA

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Spurning hvort Mjölnismen vilji deyja fyrir sameiginlegan klúbb?
Spurning hvort Mjölnismen vilji deyja fyrir sameiginlegan klúbb? Vísir/Vilhelm
Ríflega 52 prósent Akureyringa vill sameina stóru íþróttafélögin í bænum, Þór og KA, samkvæmt könnun Capacents en niðurstaða könnunarinnar var kynnt í Hofi í morgun.

Þetta kemur fram í frétt Vikudags en þar segir að aðeins 23 prósent bæjarbúa séu á móti sameiningu en fjórðungur þeirra sem spurðir voru tóku ekki afstöðu.

Svipaður fjöldi innan félaganna vill sameiningu en 47,9 prósent Þórsara sem spurðir voru sögðu já og 48,8 prósent KA-manna voru hlynntir því að sameina félögin.

Þórsarar eru aftur á móti harðari í afstöðu sinni því 35,8 prósent þeirra eru á móti sameiningu en 25 prósent KA-manna vilja ekki sameina félögin.

Fram kemur í frétt Vikudags að sameining sé ekki á dagskrá, samkvæmt formönnum félaganna.

Félögin hafa þó sameinað krafta sína í kvennaboltanum en þar leika þau undir merkjum KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta og Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna í fótbolta.

Þór/KA varð Íslandsmeistari í fótbolta sumarið 2012 og lék til úrslita í bikarnum á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×