Íslenski boltinn

Farid Zato spilar með KR í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Farid Zato, lengst til vinstri, í leik með Víkingi Ó. síðasta sumar.
Farid Zato, lengst til vinstri, í leik með Víkingi Ó. síðasta sumar. Vísir/Vilhelm
Knattspyrnudeildir KR og Þór frá Akureyri hafa sent frá sér yfirlýsingu um mál Farid Zato sem var búinn að gera samning við bæði félögin.

Í yfirlýsingunni kemur fram að Farid Zato muni spila með Íslandsmeisturum KR í Pepsi-deildinni í sumar en hann lék við góðar orðstír með liði Víkings úr Ólafsvík á síðustu leiktíð.

Félögin hafa verið í viðræðum síðustu daga eftir að það varð ljóst að þessi 21 árs miðjumaður frá Tógo hafði gert samkomulag við bæði félögin í síðasta mánuði.

Hér fyrir neðan má sjá umrædda yfirlýsingu sem var send útvöldum fjölmiðlum í dag.



Yfirlýsing Þórs og KR:

Fjölmiðlar hafa undanfarna daga flutt fréttir af væntum félagaskiptum Abdel Farid Zato Arouna frá Tógó, annaðhvort í Þór Akureyri eða í KR. Bæði lið áttu í viðræðum við leikmanninn og hans uppeldisfélag í Togo.

Félögin hafa átt í viðræðum undanfarna daga um lausn málsins og er niðurstaða þeirra að leikmaðurinn semji við KR og verði leikmaður þess á komandi sumri. Viðræðurnar fóru fram í fullri vinsemd félaganna.

Reykjavík, 12. mars 2014,

Kristinn Kjærnested,

Formaður knattspyrnudeildar KR

Aðalsteinn Pálsson

formaður Knattspyrnudeildar Þórs Akureyri


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×