Íslenski boltinn

Fylkismaður sleit krossband | Þrír kanar til reynslu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis. Vísir/Daníel
Davíð Einarsson, leikmaður Fylkis, verður ekkert með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Þetta staðfesti Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fylkis í samtali við Vísi í dag en atvikið átti sér stað á æfingu í síðustu viku.

„Við vorum að æfa á gervigrasvellinum á Fylkissvæðinu. Davíð var að hlaupa með boltann, festist aðeins í grasinu og yfirrétti hnéð,“ sagði Ásmundur og bætti við að þetta væru fyrstu alvarlegu hnémeiðsli hans.

„Þetta er mikið högg fyrir okkur, ekki síst þar sem Davíð hefur verið vaxandi í vetur og mjög öflugur.“

Davíð, sem verður 22 ára á árinu, er uppalinn Fylkismaður en kom frá KR um mitt tímabil í fyrra eftir nokkurra ára dvöl þar. Hann kom við sögu í níu deildarleikjum með Fylki síðastliðið sumar og einum með KR.

Gervigrasið sem er á Fylkissvæðinu er orðið gamalt og úr sér gengið að sögn Ásmundar. „Það er löngu kominn tími á það og leikmenn finna vel fyrir því,“ sagði hann.

Fylkismenn halda til Spánar á morgun og verða þar í æfingaverð í eina viku. Ásmundur segir að enn sé verið að leita að leikmönnum til að styrkja liðið fyrir sumarið.

„Við fáum þrjá Bandaríkjamenn með í æfingaferðina - tvo framherja og einn miðjumann. Svo kemur í ljós hvað verður en meiðsli Davíðs setja þessi mál í nýtt samhengi,“ sagði Ásmundur en hann er enn að leita að sóknarmanni til að fylla í skarð Viðars Arnar Kjartanssonar sem fór til Noregs.

Félagið hefur þó fengið Bandaríkjamanninn Andrew Sousa, Gunnar Örn Jónsson frá Stjörnunni og endurheimt þá Ragnar Braga Sveinsson og Andrés Má Jóhannesson úr atvinnumennsku.

„Ragnar Bragi lítur vel út en Andrés er að glíma við meiðsli. Hann kemur þó með okkur út og verður í endurhæfingu þar,“ segir Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×