Íslenski boltinn

Keflvíkingar spila í svörtu í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Ólafur Jónsson, einn af Íslandsmeisturum Keflavíkur árið 1964, og Hörður Sveinsson, besti leikmaður meistaraflokks karla á síðasta ári.
Jón Ólafur Jónsson, einn af Íslandsmeisturum Keflavíkur árið 1964, og Hörður Sveinsson, besti leikmaður meistaraflokks karla á síðasta ári. Mynd/Heimasíða Keflavíkur
Keflvíkingar ætla að minnast þess í Pepsi-deildinni í sumar að fimmtíu ár eru liðin síðan að Keflavík varð Íslandsmeistari í fótbolta í fyrsta sinn árið 1964. Þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

„Af því tilefni hefur verið ákveðið að leita aftur til fortíðar og í sumar mun meistaraflokkur karla spila í svörtum treyjum og hvítum buxum en þannig var Keflavíkurbúningurinn einmitt fram til ársins 1972.  Varabúningurinn verður áfram gulur eins og í fyrra," segir í frétt á heimasíðu Keflavíkur.

Keflavík hefur gert þriggja ára samning við Icepharma um að allir flokkar Keflavíkur spili í Nike-búningum.

Jón Ólafur Jónsson, einn af Íslandsmeisturum Keflavíkur árið 1964, og Hörður Sveinsson, besti leikmaður meistaraflokks karla á síðasta ári, kynntu nýja búninginn í höfuðstöðvum Landsbankans í gær en Landsbankinn er aðalstyrktaraðili Keflavíkurliðsins.

Keflavík endaði í 9. sæti í Pepsi-deildinni á síðasta sumri en liðið náði í 83 prósent stiga sinna eftir að Kristján Guðmundsson tók við liðinu 19. júní eftir að hafa aðeins náð í fjögur stig í fyrstu sjö umferðunum undir stjórn Zoran Daníels Ljubicic.

Óli B. Jónsson þjálfaði fyrsta Íslandsmeistaralið Keflavíkur árið 1964 en liðið fékk þá þremur stigum meira en lið ÍA eftir að hafa unnið 6 leiki og gert 3 jafntefli í 10 leikjum. Það má sjá úrslit þessa móts hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×