Íslenski boltinn

Sóley: Við gáfum allt sem við áttum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sóley Guðmundsdóttir í leik með ÍBV.
Sóley Guðmundsdóttir í leik með ÍBV. vísir/anton
Sóley Guðmundsdóttir fyrirliði ÍBV var svekkt eftir tapið í úrslitaleik Borgunarbikarsins í kvöld. Hún reyndi þó að sjá björtu hliðarnar þegar Vísir náði tali af henni skömmu eftir leik.

„Það er mikið spennufall og auðvitað svekkelsi. En við gáfum allt sem áttum í þennan leik og það er ekki hægt að biðja um meira en það,“ sagði Sóley eftir leik.

„Það var erfitt að fá á sig mark svona snemma. En við náðum að rífa okkur upp. Við sögðum fyrir leik að ef ein myndi detta þá rífum við hana saman upp og það gerðum við.“

ÍBV átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleiknum en komu af krafti inn í þann síðari og náðu að minnka muninn og setja pressu á Breiðablik.

„Seinni hálfleikur var miklu betri. Við töluðum um það inni í klefa að klára leikinn og hafa trú á verkefninu. Það sást að við höfðum trú og keyrðum á þær á fullum krafti og ætluðum okkur sigur. Þetta er stærsti leikur sem við allar höfum spilað. Upplifunin er frábær og margir áhorfendur.“

„Nú vitum við að hverju við göngum og mætum reynslunni ríkari á næsta ári,“ sagði fyrirliði ÍBV, Sóley Guðmundsdóttir, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×