Íslenski boltinn

Andri Rúnar: Er einn af þeim sem spái síst í þessu meti

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason er kominn með 15 mörk í Pepsi-deildinni.
Andri Rúnar Bjarnason er kominn með 15 mörk í Pepsi-deildinni. Vísir/Stefán
„Fyrir leikinn hefði ég kannski verið sáttur með stig en samt ekki. Það er drullufúlt að tapa þessu niður sem sýnir hversu langt við erum komnir, að vera fúlir með jafntefli gegn KR,“ sagði markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason hjá Grindavík eftir 2-2 jafntefli gegn KR í Grindavík í dag.

Andri Rúnar jafnaði metin í 1-1 undir lok fyrri hálfleiks og markið var heldur betur af dýrari gerðinni. Hann fékk boltann utan við teig, stillti honum upp og þrumaði síðan í þverslána og inn.“

„Ég held að þetta sé það flottasta sem ég hef gert í sumar. Það var ágætt,“ sagði Andri Rúnar brosandi.

Markið var það fimmtánda hjá Andra Rúnari í sumar sem þýðir að hann vantar aðeins fjögur mörk til að jafna markametið í efstu deild.

„Ég er örugglega einn af þeim sem er síst að spá í þessu meti. Ég er bara að hugsa um hvern leik fyrir sig. Þetta er þarna einhvers staðar aftast og það eru margir að nefna þetta við mig. Ég reyni bara að halda mér á jörðinni og hugsa um næsta leik sem er gegn FH.“

Grindavík er í baráttu um Evrópusæti en þrjú efstu lið deildarinnar tryggja sér sæti í Evrópukeppni á næsta ári. Grindavík er sem stendur í 4.sæti.

„Á meðan við erum í séns á Evrópusæti þá ættum við að geta reynt við það. Það væri fáránlegt að vera í þessari stöðu og ætla að enda neðar. Að sjálfsögðu er það þá líka markmið að reyna að halda okkur í þessari stöðu,“ sagði Andri Rúnar Bjarnason í samtali við Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×