Norska landsliðskonan í handbolta, Nora Mørk, krefst rúmlega 28 milljóna króna í skaðabætur frá mönnunum sem dreifðu nektarmyndum af henni.
Í síðasta mánuði greindi Mørk frá því í viðtali við TV2 að brotist hefði verið inn í síma hennar, viðkvæmum myndum af henni stolið og þeim dreift.
Dagbladet greinir frá því að lögmaður Mørks hafi sent 15 mönnum sem dreifðu myndum af henni kröfu um að þeir greiði henni 150.000 norskar krónur í skaðabætur. Það eru rétt tæpar 1,9 milljónir íslenskra króna.
Dólgarnir hafa tvær vikur til að svara kröfunni. Ef þeir samþykkja ekki að greiða fer málið fyrir dóm og það verður enn dýrara fyrir þá. Til viðbótar við eigin lögfræðikostnað gætu þeir þurft að borga lögfræðikostnað Mørks.
Rannsóknarteymið sem kom upp glæpinn er þó ekki hætt og gæti fundið fleiri menn sem gerðust sekir um að dreifa myndunum.
Mørk verður í eldlínunni þegar Noregur mætir Spáni í 16-liða úrslitum HM í handbolta í kvöld. Norska liðið er ríkjandi heimsmeistari og á titil að verja.
Krefur dólgana sem dreifðu nektarmyndum af henni um rúmar 28 milljónir

Tengdar fréttir

Viðkvæmum myndum af einni bestu handboltakonu heims dreift á netinu
Óprúttinn aðili braust inn í síma Noru Mørk, einnar bestu handboltakonu í heimi, í haust og stal þaðan persónulegum myndum og dreifði á veraldarvefnum.

Átti sinn besta leik í skugga kynferðisofbeldis
Norska handboltakonan Nora Mörk fór á kostum í Meistaradeild Evrópu.

Nora Mörk kærir fimmtán menn fyrir að dreifa myndunum af sér
Norska handboltakonan Nora Mörk ætlar ekki gefa neitt eftir í baráttunni við þá óprúttnu aðila sem brutust inn í símann hennar í haust og komust yfir viðkvæmar myndir af henni.