Leicester fór illa með tíu leikmenn Arsenal

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arsenal í ruglinu
Arsenal í ruglinu vísir/getty
Arsenal heimsótti Leicester í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og eygði möguleikann á því að koma sér í 4.sætið eftirsótta um stundarsakir hið minnsta.

Leicester mættu hins vegar mun sterkari til leiks og voru með yfirhöndina stærstan hluta leiksins. Ekki vænkaðist hagur Arsenal þegar Ainsley Maitland-Niles fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 36.mínútu.

Eftir tæplega klukkutíma leik kom fyrsta mark leiksins og var þar að verki belgíski miðjumaðurinn Youri Tielemans með skalla eftir fyrirgjöf James Maddison.

Jamie Vardy gulltryggði svo sigur Leicester með marki á 86.mínútu þar sem miðverðir Arsenal steinsváfu á verðinum en stoðsendingin kom frá Kasper Schmeichel með markspyrnu.

Vardy var ekki hættur því hann fullkomnaði niðurlægingu Arsenal á lokasekúndum leiksins þegar hann renndi boltanum framhjá Bernd Leno eftir að Ricardo Pereira hafði labbað í gegnum vörn Arsenal.

Arsenal situr því sem fastast í 5.sæti deildarinnar og á að hættu að detta niður í 6.sæti síðar í dag, takist Man Utd að leggja Chelsea að velli.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira