Körfubolti

„Dómur þarna í restina sem á­kveður úr­slitin“

Siggeir Ævarsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, ekki sáttur með meðferðina á Lautier.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, ekki sáttur með meðferðina á Lautier. Vísir/Anton Brink

Njarðvíkingar þurftu að sætta sig við súrt eins stigs tap, 68-67, gegn Valsmönnum á Hlíðarenda í kvöld en úrslit leiksins réðust á vítalínunni. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkinga var ekki sáttur við dómgæsluna undir lokin.

„Þetta var bara 50/50 leikur í lokin. Það var bara „dómur þarna í restina sem ákveður úrslitin“ og það er ofboðslega vont að tapa svoleiðis.“

Benedikt sagði erfitt að kyngja því að úrslitin hefðu ráðist á þennan hátt en hann var harður á því að villan sem dæmd var á Mario Matasovic hefði einfaldlega verið rangur dómur.

„Ef hann hefði brotið þá væri auðveldra að lifa með þessu en hann braut ekki. Menn geta skoðað það og meira að segja Kristinn segir það og Mario talar um það, hann snerti hann ekki. Það er það sem gerir þetta svo sárt.“

„Auðvitað teygir hann sig eitthvað í áttina að honum en það verður samt að vera snerting. Þó hann hafi strokið hann eitthvað aðeins, ef þú lest leikinn þá læturðu þetta ekki ráða úrslitum. Þú lætur bara leikmennina klára leikinn og annað hvort liðið vinnur.“

Valsmenn skoruðu aðeins átta stig í lokaleikhlutanum og fimm þeirra komu af vítalínunni síðustu einu og hálfu mínútuna. Benni sagði að það þyrfti ekki að koma neinum á óvart að skorið væri lágt í þessum leikjum.

„Bæði lið náttúrulega spila hörku vörn og eru búin að gera það allt einvígið. Svona í bland við síðan bara slæma hittni og svona. Þetta eru leikir með lágu skori meira og minna, þannig er bara þessi sería. Ef fólk vill fá fullt af stigum þá bara mætir það á hina seríuna.“

„Bæði lið eru bara að gera hinu liðinu erfitt fyrir og þröngva í hluti sem þau vilja ekkert endilega gera. Það fer í báðar áttir. Hugsanlega verður það bara þannig áfram, það kemur í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×