Handbolti

Blær hefur trú á því að strákarnir komist í úrslit og þá ætlar hann að reyna vera klár

Stefán Árni Pálsson skrifar
Blær meiddist mjög illa gegn Fram í gær en útlitið er ekki eins slæmt og á horfðist.
Blær meiddist mjög illa gegn Fram í gær en útlitið er ekki eins slæmt og á horfðist. Vísir/bjarni

Blær Hinriksson meiddist illa í leik gegn Fram í gær og margir töldu að tímabilinu væri lokið hjá miðjumanninum. Hann gæti nú mögulega snúið aftur ef Afturelding kemst alla leið í úrslitaeinvígið.

Blær hefur verið einn besti leikmaður Aftureldingar í vetur en hann missteig sig mjög illa í leiknum gegn Fram í gær. Afturelding vann leikinn eftir framlengingu 33-30 og er 1-0 yfir í einvíginu. Örnólfur Valdimarsson bæklunarskurðlæknir skoðaði Blæ í dag og fréttastofa hitti leikmanninn þegar hann gekk út úr þeirri skoðun.

„Örnólfur skoðaði þetta vel og ég fór líka í myndatöku í gær og það sást ekkert brot sem eru mjög jákvæðar fréttir en þetta eru einhver sködduð liðbönd, einhver rifin liðbönd og mar sem eru betri fréttir en á horfðist,“ segir Blær og heldur áfram.

„Maður var bara að hoppa upp og lendir síðan mjög skringilega á ökklanum. Það myndaðist strax mikill þrýstingur og miklir áverkar en svona er þetta bara.“

Ætlaði að koma aftur út í seinni hálfleikinn

Blær segir að sársaukinn hafi verið gríðarlegur en hann ætlaði sér samt sem áður að reyna fara aftur út í leikinn eftir slysið.

„Þetta var frekar vont.“

Blær missti sjálfur af síðari hálfleiknum í gær og sá ekki liðið vinna leikinn.

„Ég spurði bara þjálfarann hvað ég gæti gert til að klára leikinn. Hann taldi það ekki rétt og því var frekar ákveðið að kalla til sjúkrabíl, bólgan var það mikil.“

Hann vill ekki meina að tímabilinu sé lokið hjá sér.

„Ég ætla ekki að útiloka neitt. Ef við komumst alla leið þá gæti ég kannski náð lokaleikjunum. Við krossum bara fingur og sjáum til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×