Erlent

Or­lofs­húsið uppfyllti ekki bruna- og öryggis­kröfur

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Húsið er gjöreyðilagt.
Húsið er gjöreyðilagt. EPA

Orlofsheimilið sem brann í Frakklandi í gær og sem varð til þess að ellefu manns létust, uppfyllti ekki bruna- og öryggiskröfur samkvæmt staðgengli saksóknara. Þá hafi eigendur hússins haft leyfi til þess að hýsa sextán manns í húsinu, en alls 28 manns voru staðsettir inni í húsinu þegar eldurinn kviknaði.

Eldur kviknaði í þriggja hæða byggingu í gær sem hýsti orlofsheimili fyrir fólk með námserfiðleika. Heimilið var staðsett í bænum La Forge í norðausturhluta Frakklands, skammt frá þýsku landamærunum.

Nathalie Kielwasser, staðgengill saksóknara Colmar-borgar sagði bygginguna ekki hafa gengist undir nauðsynlega öryggisskoðun. Einnig hafi hún ekki haft þá eiginleika sem þarf til þess að hýsa almenning.

Byggingin, sem er gömul hlaða sem síðar var breytt í orlofsheimili, var nýlega tekin í gegn. Reykskynjarar voru að sögn Kielwasser í ólagi.

Starfsleyfi einungis fyrir 16 manns

Nær áttatíu slökkviliðsmenn unnu að því að slökkva eldinn en tilkynnt var um hann klukkan hálf sjö um morgun að staðartíma. Að sögn þeirra höfðu um tveir þriðju hlutar hússins þegar brunnið þegar stjórn náðist á eldinum. Þá segir að eldsupptök séu enn ókunn og lögregla rannsaki nú málið.

Sautján manns náðu að yfirgefa húsið í tæka tíð en ellefu létust, tíu fullorðnir einstaklingar sem glímdu við námserfiðleika og einn starfsmaður.

Bæjaryfirvöld í La Forge hafa gefið út þær upplýsingar að samkvæmt starfsleyfi mátti orlofsheimilið aðeins hýsa sextán manns en 28 manns hafi verið í húsinu þegar eldurinn spratt upp. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×