Enski boltinn

Segir við­brögð fjöl­miðla til skammar

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag fer yfir málin mðe Bruno Fernandes á Wembley á sunnudaginn.
Erik ten Hag fer yfir málin mðe Bruno Fernandes á Wembley á sunnudaginn. Getty/Richard Heathcote

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, telur umfjöllun fjölmiðla hafa verið til skammar eftir að liðið sló út B-deildarlið Coventry í undanúrslitum enska bikarsins á sunnudaginn.

Ten Hag segir fjölmiðla líta framhjá þeirri staðreynd að það sé stórkostlegur árangur hjá United að komast tvisvar í úrslitaleik bikarsins á tveimur árum.

Mikið hefur verið fjallað um hrun United í leiknum á sunnudaginn en eftir að hafa komist í 3-0 fékk liðið á sig þrjú mörk og tókst ekki að knýja fram sigur fyrr en í vítaspyrnukeppni. Í lok framlengingarinnar virtist Coventry hafa tryggt sér sigur en markið var dæmt af vegna mjög tæprar rangstöðu.

„Fótbolti snýst um úrslit,“ sagði Ten Hag í dag. „Við komumst í úrslitaleikinn og við verðskulduðum það. Við misstum stjórnina í tuttugu mínútur og vorum heppnir í lokin en við komumst í úrslitaleikinn. Það er rosalegt afrek,“ sagði Ten Hag.

Jamie Carragher, sérfræðingur Sky Sports, sagðist telja að þrátt fyrir sigur í vítaspyrnukeppni hefðu úrslitin gegn Coventry kostað Ten Hag starfið.

Fyrrverandi markaskorarinn Chris Sutton sagði að engin leið væri fyrir Ten Hag til að halda starfinu úr þessu, þrátt fyrir að úrslitaleikurinn gegn Manchester City sé í næsta mánuði.

Ten Hag var spurður hvort hann sýndi neikvæðum viðbrögðum eftir leikinn skilning:

„Nei, alls ekki. Viðbrögðin frá ykkur voru til skammar. Tvisvar [í úrslitaleik bikarsins] á tveimur árum. Það er stórkostlegt. Fyrir mig sem stjóra, fjórir bikarúrslitaleikir á fjórum árum. Ummælin hafa verið algjört hneyksli,“ sagði Ten Hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×