Fótbolti

Infantino: Stór­kost­legt að hitta Þor­vald

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það fór mjög vel á með Þorvaldi Örlygssyni og Gianni Infantino í París.
Það fór mjög vel á með Þorvaldi Örlygssyni og Gianni Infantino í París. KSÍ

Þorvaldur Örlygsson, nýr formaður Knattspyrnusambands Íslands, átti sinn fyrsta fund með Gianni Infantino, forseta FIFA, í París á þriðjudag.

Alþjóða knattspyrnusambandið og Knattspyrnusamband Íslands sögð bæði frá fundinum á heimasíðu sinni. Þar kemur fram að þeir félagar hafi meðal annars rætt A landslið karla og kvenna og umsókn KSÍ um að taka þátt í Talent Development Scheme.

Með Talent Development Scheme vill FIFA hjálpa aðildarsamböndum sínum að ná hámarksárangri og tryggja að allir hæfileikaríkir leikmenn eigi möguleika á að þróast og verða uppgötvaðir. Langtímamarkmið áætlunarinnar er að hækka rána í A landsliðum karla og kvenna.

Þeir Þorvaldur og Gianni ræddu einnig innviði í Laugardalnum.

„Við töluðum um eitt af okkar mikilvægustu málefnum sem eru vallarmál. Það er frábær byrjun fyrir okkur að fá stuðning frá Infantino forseta FIFA, að heyra að hann sé viljugur til að styðja við verkefni eins og þetta,“ sagði Þorvaldur í frétt á heimasíðu KSÍ.

Infantino afhenti líka Þorvaldur sérmerkta veifu þar sem má finna nafn þeirra beggja og dagsetningu fundarins.

„Það var stórkostlegt að hitta forseta Knattspyrnusambands Íslands, Þorvald Örlygsson, í París og ég óskaði honum til hamingju með kosningu sína á dögunum,“ sagði Gianni Infantino á Instagram síðu sinni.

„Allir hafa tekið eftir góðum árangri landsliða Íslands á síðustu árum og ég mjög ánægður með að Knattspyrnusamband Íslands sé tilbúið að stíga skrefin til að halda áfram að ná góðum árangri í framtíðinni með því að huga vel að yngri flokka starfinu,“ sagði Infantino.

„Örlygsson forseti er fyrrum landsliðsmaður sjálfur og hann þekkir vel mikilvægi þess að byrja strax í grasrótunum. Umsókn Íslands um að taka þátt í Talent Development Scheme er risaskref í rétt átt,“ sagði Infantino.

Alþjóða knattspyrnusambandið sýndi fundinum líka áhuga og nánar má lesa um fund þeirra Þorvaldar og Infantino á heimasíðu FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×