Upp­gjörið: Valur - FH 3-0 | Nýtt leik­skipu­lag skilaði frá­bærum árangri

Ágúst Orri Arnarson skrifar
434743671_7618554928197218_4800752139064704481_n
vísir/hulda margrét

Valur vann FH 3-0 á Hlíðarenda í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Heimamenn höfðu algjöra yfirburði í leiknum og verðskulduðu sigurinn sannarlega.

Valur hóf leikinn af miklum krafti í nýju leikskipulagi. Spiluðu með þrjá miðverði, Birkir Már og Jónatan Ingi í vængbakvörðum. Aron Jóhannsson, Kristinn Freyr og Gylfi Sigurðsson á miðjunni. Þrír menn með gæði og alvöru flæði, létu boltann ganga vel milli sín og ógnuðu mikið. 

Valur vann hornspyrnu á 4. mínútu, Gylfi Sig mundaði auðvitað fótinn og flengdi boltanum frábærlega fyrir. Útsveifluhornspyrna sem rataði beint á pönnuna hjá Hólmari Erni, fastur skalli í efra hægra hornið.

Leikurinn var afar fjörugur allan fyrri hálfleikinn. Valsmenn við stjórnina vissulega og sköpuðu mun fleiri færi en FH ógnaði oft með hröðum skyndisóknum gegn hárri varnarlínu Vals.

Undir lok hálfleiks kom markahrókurinn Patrick Pedersen boltanum í netið. Þá lenti FH í vandræðum, eins og oft áður í leiknum, við að spila upp úr vörninni. Valsmenn unnu boltann og fundu Jónatan Inga vinstra megin, hann gaf fasta fyrirgjöf meðfram jörðinni á Patrick Pedersen sem kláraði auðvelt færið.

Seinni hálfleikurinn hófst engu verr en sá fyrri fyrir Val. Algjörir yfirburðir í upphafi og tók ekki nema fimm mínútur að koma boltanum í netið í þriðja sinn.

Gylfi og Tryggvi Hrafn tengdu vel saman og tóku nokkra þríhyrninga upp hægri kantinn. Gylfi virtist ætla að skjóta en lagði boltann til hliðar á Tryggva sem kom honum í netið.

Leikurinn var opinn alveg til enda, FH komst nokkrum sinnum nálægt því að minnka muninn og Valur hefði hæglega getað bætt við. En fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 3-0 verðskuldaður Valssigur.

Atvik leiksins

Grétar Snær Gunnarsson renndi sér í snælduruglaða tæklingu undir lok leiks. Fleygði sér í jörðina og klippti Adam Ægi niður aftan frá. Fékk beint rautt fyrir. Það dró til átaka í kjölfarið milli liðanna enda gerðist þetta beint fyrir framan varamannabekkina. Róaðist fljótt en Böðvar Böðvarsson og Orri Sigurður Ómarsson fengu gult spjald fyrir.

Heimir Guðjónsson vildi meina að hann hefði ekki fengið rautt spald fyrir sama brot ári fyrr. Dæmi hver fyrir sig en atvikið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 

Stjörnur og skúrkar

Gylfi Sigurðsson var langbesti maður vallarins í kvöld. Stýrði öllu spili og sóknarleikur Vals snerist um hann. Skilaði tveimur stoðsendingum. Jónatan Ingi átti mjög öflugan leik í vinstri vængbakverðinum, staða sem hann er ekki vanur að spila. Annars var allt Valsliðið bara glæsilegt á vellinum í dag, lítið út á þeirra leik að setja og margir sem eiga skilið stjörnu.

Skúrkur dagsins er auðvitað Grétar Snær Gunnarsson fyrir gjörsamlega galna tæklingu þegar leikurinn var löngu búinn. Svo verður líka að setja smá spurningamerki við sóknarlínu FH sem fór oft illa með góðar stöður í leiknum.

Umgjörð og stemning

Vel að þessu staðið hjá Valsmönnum. Fan Zone-ið á sínum stað fyrir leik í Fjósinu. Tilkynntu skiptidílinn við FH og kynntu Ólaf Karl Finsen, nýjan leikmann liðsins.

Fjölmenni á vellinum en ekki alveg full stúka, og lítil sem engin læti í áhorfendum. Voru væntanlega of uppteknir að gæða sér á veitingum og veigum, frábært úrval af þeim allavega.

Æðislegar BakaBaka pizzur eða samlokur sem voru í boði. Við blaðamenn borðuðum reyndar bara köldu Dominos pizzuna sem var kastað í okkur, en þetta leit mjög girnilega út þegar allir aðrir í kringum mann smjöttuðu. 

Dómarar

Pétur Guðmundsson á flautunni, Bryngeir Valdimarsson og Guðmundur Ingi Bjarnason til aðstoðar.

Brjálað að gera hjá þeim í kvöld. Eitt rautt og óteljandi gul. Þau voru reyndar 11, en samt.

Eins og virðist orðin venja voru 1-2 gul spjöld þarna sem voru óþarfi en annars allt rétt flautað í báðar áttir. Hárrétt að reka Grétar Snæ beint af velli. 

Viðtöl

„Ég var bara beðinn að koma í viðtal. Svosem engin ástæða fyrir því.“

Haukur Páll Sigurðsson fyrrum leikmaður og núverandi aðstoðarþjálfari Vals í knattspyrnu.Vísir/Dúi

Arnar Grétarsson kaus að gefa ekki kost á sér í viðtöl eftir leik. Hvers vegna er óvitað en hann hlaut töluverða gagnrýni úr ýmsum áttum í vikunni fyrir framkomu sína við blaðamenn eftir leik gegn Stjörnunni á föstudag. 

„Klárlega [sáttur með sigurinn], mjög ánægðir að vera komnir áfram. Það var markmiðið og heildar frammistaða liðsins var bara mjög góð í dag“ sagði Haukur Páll Sigurðsson sem mætti í stað Arnars. 

Valur hafði farið tvo leiki í röð án þess að skora mark. Jafntefli og tap. Ekkert frábærar frammistöður þar en liðið svaraði vel í kvöld. 

„Ég er reyndar smá ósammála þér þar. Jújú, hefðum getað verið betri á móti Fylki og meira klíniskir sóknarlega. Móti Stjörnunni endum við manni færri. Frammistaðan þar finnst mér samt mjög góð manni færri. Við tókum fullt af jákvæðum hlutum úr þeim leikjum sko, svo hélt það bara áfram í dag og það skilar 3-0 sigri.“

Haukur tók ekki undir þegar undirritaður grínaðist með að Grétar Snær hafi framið líkamsárás á Adam Ægi. 

„Neinei, þetta er bara hluti af fótbolta. Ég held þetta hafi verið hárréttur dómur en svona gerist bara, mönnum verður heitt í hamsi.“

Það urðu breytingar á leikmannahópi liðsins í dag. Framherjinn Ólafur Karl og bakvörðurinn Hörður Ingi fengnir inn. Hvaða pælingar lágu þar að baki? 

„Óli Kalli náttúrulega var hér sem leikmaður áður. Hefur samband og spyr hvort hann megi mæta á æfingar. Var svosem búinn að gefa út að hann væri hættur. Þannig við leyfðum honum að koma á æfingu, stóð sig flott og við ákváðum bara að hafa hann til taks. Hann er bara að njóta þess að vera í fótbolta.

Svo erum við með Sigga [Sigurð Egil Lárusson] sem er tognaður. Förum að leita í þá stöðu. Ekki vitað hversu lengi hann verður frá þannig að það er ástæðan fyrir því að förum þangað.“

Þessi skipti ættu að auka samkeppni um mínútur, sem er þegar hörð hjá félaginu. 

„Jájá, það er bara samkeppni um allar stöður í Val hvar sem þú ert á vellinum. Þannig viljum við hafa það og það er bara jákvætt.“

„Hef ekki spilað þarna áður en fannst ég hafa leyst þetta ágætlega“

Jónatan var settur í vængbakvörð í seinni hálfleik í síðasta leik gegn Stjörnunni og spilaði þar allan leikinn í kvöld. vísir / PAWEL

„Við þurftum smá á þessu að halda. Svekkjandi á móti Stjörnunni og vorum búnir að eiga ágætis frammistöður en ekki fá stigin. Vildum sýna að við getum átt alvöru frammistöðu og unnið leikina. Héldum hreinu, 3-0, mjög professional að mínu mati“ sagði Jónatan Ingi Jónsson fljótlega eftir leik. 

Jónatan var látinn spila nýja stöðu í kvöld, hann leysti vinstri vængbakvörðinn í þriggja/fimm manna línu Vals. 

„Þetta var bara fínt, ég hef ekki spilað þessa stöðu áður nema í seinni hálfleik móti Stjörnunni. Það sem þjálfarinn biður mig að spila mun ég spila, en ég er ekki vanur að spila þarna. Hef ekki spilað þarna áður en með svona góða leikmenn í kringum sig og mér finnst ég með þokkalegan skilning á fótbolta. Fannst ég hafa leyst þetta ágætlega.“

Það var svekkjandi niðurstaða gegn Stjörnunni síðast og þar áður gegn Fylki. Valsliðið var staðráðið í að sanna sig í kvöld. 

„Fáum þetta rauða spjald [gegn Stjörnunni] og það var svekkjandi. Héldum haus, hefðum alveg getað misst það í einhverja vitleysu. Aðdragandinn að þessum leik var bara að við ætluðum að sýna alvöru frammistöðu.“

Það er auðvitað ekki í verkahring Jónatans að stilla liðinu upp eða skipuleggja leiki, en býst hann við að Valur haldi áfram í þessu kerfi og er hann til í að vera vængbakvörður í allt sumar? 

„Bara eins og ég segi, spila þar sem þjálfarinn biður mig að spila. Það verður bara að koma í ljós hvaða kerfi við spilum, ætli það komi ekki í ljós á næstu dögum og í næstu leikjum. Fínt að vita að við getum spilað tvö mismunandi kerfi, ágætis vopn myndi ég segja.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira