Fótbolti

Guð­mundur Baldvin: Þrjú stig í hús á erfiðum velli og það er bara frá­bært

Árni Jóhannsson skrifar
Guðmundur Baldvin var hetja Stjörnunnar í kvöld.
Guðmundur Baldvin var hetja Stjörnunnar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan vann 1-0 sigur á Fylki í Árbænum í fjórðu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu og var það varamaðurinn Guðmundur Baldvin Nökkvason sem skoraði sigurmarkið. Guðmundur á eftir að byrja leik þetta tímabilið en markið gæti hjálpað honum í þeim efnum.

„Þrjú stig í hús á erfiðum velli og það er bara frábært“, sagði stigaþjófurinn Guðmundur Baldvin Nökkvason þegar hann var beðinn um lýsa tilfinningum sínum skömmu eftir leik þar sem hann skoraði sigurmarkið þegar langt var komið fram í uppbótartímann.

Þá var hann beðinn um að lýsa markinu en úr blaðamannastúkunni virkaði þetta eins og pínu klafs.

„Nei nei, þetta var fyrirgjöf frá Jóa held ég [Óli Valur var það reyndar] á Andri Adolphson fær hann og leggur hann út á mig og ég legg hann í markið.“

Guðmundur telur að leikurinn hefði getað klárast fyrr ef Stjarnan hefði verið ögn rólegri.

„Við hefðum þurft að vera rólegri og öflugri á boltanum. Mér fannst við gefa þeim nokkur góð færi. Við vorum svolítið fljótir að gefa boltann frá okkur og þeir fengu helvítis færi sem er ekki gott. Bara rólegri heilt yfir.“

„Það er gríðarlega mikilvægt að skora. Gott fyrir liðið og mig. Fengum þrjú stig fyrir það og sigur í blálokin. Sem er geggjað.“

Að lokum var Guðmundur spurður að því hvort hann myndi mæta á skrifstofu þjálfarans í fyrramálið að heimta byrjunarliðssæti.

„Já já. Ég vakna kl. átta og mætibeint á skrifstofuna. Nei ég segi svona. Ég þarf bara að gera mitt og gera mitt besta en að endingu er það þjálfarans að velja liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×