Innlent

Fiska­dauði í einni af mestu sjó­birtings­veiði­ám landsins

Bjarki Sigurðsson skrifar
Dauðir fiskar við þurran Grenlæk.
Dauðir fiskar við þurran Grenlæk. Haf og vatn

Vatnsþurrð er nú í Grenlæk í Landbroti sem er ein mesta sjóbirtingsveiðiá landsins. Við skoðun Hafs og vatns á svæðinu fannst mikið af dauðum sjóbirtingum en efstu hlutar árinnar eru mikilvægar hrygningar- og uppeldisstöðvar fyrir tegundina. 

Flestir fiskanna voru yfir fimmtíu sentimetra langir og telur Haf og vatn þá að líkindum fiska sem hrygndu í haust. Þá hefur meira vatnalíf orðið illa úti vegna þurrðarinnar, til að mynda hafa þörungar og smádýr drepist á svæðinu. 

„Sérstaklega hefur sjóbirtingsstofninn orðið illa úti, þar sem nær öll seiði og hrogn sem nú eru í mölinni á svæðinu hafa drepist og þar með 2–3 seiðaárgangar. Farvegur lækjarins var að mestu skraufaþurr og sást lítið sem ekkert vatn utan einstaka þornandi smápolla. Engan lifandi fisk var að sjá á svæðinu,“ segir í tilkynningu á vef Hafs og vatns. 

Vatnsbúskapur Grenlækjar er háður því að nægilegt vatn flæði úr Skaftá og út á Eldhraunið en ef svo er ekki þá á rennsli Grenlækjar til með að þrjóta.

„Vatnsþurrð hefur endurtekið orðið í Grenlæk síðast árin 2016 og 2021. Munur frá fyrri atburðum er að nú sást mun meira af dauðum fiski en áður. Svo virðist sem sjóbirtingurinn hafi ekki náð að ganga niður af svæðinu eftir hrygningu sl. haust líkt og áður,“ segir í tilkynningunni. 

Finna þurfi leiðir til frambúðar til að tryggja háa grunnvatnsstöðu í hraunum á svæðinu svo vatnsrennsli til lindarvatna verði nægt til að viðhalda vatnsrennslinu og því ríkulega lífríki og fiskgengd sem þar er að finna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×