Veður

Gular við­varanir víðs vegar um landið

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hér má sjá gulu viðvarinarnar.
Hér má sjá gulu viðvarinarnar. Veðurstofa Íslands

Gular viðvaranir eru víðs vegar um landið í dag. Sjö af þeim ellefu landshlutum sem Veðurstofan skiptir landinu í eru gulir á korti hennar í dag.

Það eru Suðurland, Faxaflói, Vestfirðir, Norðurland eystra, Austurland að glettingi, Austfirðir, og Suðausturland. Viðvörunin er ýmist vegna hvassviðris, storms eða hríðar.

Fyrsta viðvörunin tók gildi klukkan 8:25 í morgun á Suðurlandi, en hún stendur yfir til klukkan níu í kvöld. Síðasta viðvörunin tekur gildi klukkan átta í kvöld og mun standa yfir til klukkan sex á morgun, mánudag.

Í lýsingum Veðurstofunnar fyrir nokkra landshluta segir að varasamt sé fyrir vegfarendur með aftanívagna eða á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni. Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.

„Lægð suðvestur í hafi kemur upp að Reykjanesi í dag. Henni fylgir allhvöss austanátt á sunnanverðu landinu, en stormur syðst. Heldur hægari norðanlands. Rigning á sunnanverðu landinun, en rigning eða slydda norðantil upp úr hádegi og snjókoma til fjalla. Færð gæti spillst seinnipartinn á fjallvegum á Norður- og Austurlandi og hafa verið gefnar út gular viðvaranir vegna þess, einning vegna vinds syðra,“ segir í hugleiðingu veðurfræðings.

„Í kvöld og nótt fara skil lægðarinnar norður yfir land og veðrið skánar. Á morgun er útlit fyrir minnkandi sunnanátt með dálitlum skúrum, en nokkuð samfelldri rigningu á Suðausturlandi. Það hlýnar í veðri og hiti ætti að komast í 12 til 13 stig norðan- og austanlands.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:

Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og skúrir, en styttir upp um landið austanvert seinnipartinn. Hiti 6 til 12 stig.

Á miðvikudag:

Suðvestan 5-13 en austlæg átt 5-10 á Vestfjörðum. Skúrir á vestanverðu landinu en lengst af þurrt austanlands. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Vestlæg átt 3-10 og stöku skúrir, en suðaustanátt og fer að rigna sunnan- og vestanlands undir kvöld. Hiti 3 til 10 stig.

Á föstudag:

Suðaustlæg átt og súld eða rigning sunnan- og vestanlands, en dregur úr úrkomu síðdegis. Bjart með köflum á Norður- og Austurlandi. Hiti 9 til 14 stig.

Á laugardag:

Útlit fyrir austlæga átt. Lítilsháttar væta um sunnan- og vestanvert landið en bjart að mestu fyrir norðan og austan. Hlýtt í veðri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×