Körfubolti

OKC á­fram taplaust og Boston byrjar vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shai Gilgeous-Alexander og félagar í Oklahoma City Thunder hafa unnið fyrstu fimm leiki sína í þessari úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta.
Shai Gilgeous-Alexander og félagar í Oklahoma City Thunder hafa unnið fyrstu fimm leiki sína í þessari úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta. AP/Nate Billings

Boston Celtics og Oklahoma City Thunder byrjuðu bæði mjög vel í undanúrslitaeinvígum sínum í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta í nótt.

Oklahoma City Thunder vann alla fjóra leiki sína á móti New Orleans Pelicans í fyrstu umferðinni og fylgdi því eftir með öruggum 117-95 sigri á Dallas Mavericks í nótt.

Shai Gilgeous-Alexander var frábær með 29 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar og hafði betur gegn slóvensku stórstjörnunni Luka Doncic. Báðir eru tilnefndir sem mikilvægasti leikmaður deildarinnar en Doncic var bara með 19 stig, hitti aðeins úr 6 af 19 skotum og tapaði fimm boltum.

Nýliðinn Chet Holmgren bætti við 19 stigum, 7 fráköstum og 3 vörðum skotum fyrir Thunder og Jalen Williams, sem hitti ekki vel framan af leik, skoraði 10 af 18 stigum sínum í fjórða leikhlutanum.

Kyrie Irving skoraði 20 stig fyrir Dallas og Daniel Gafford var með 16 stig, 11 fráköst og 5 varin skot.

Boston Celtics er líklegt til afreka í úrslitakeppninni í ár og sýndi það með 120-95 sigri í fyrsta leiknum á móti Cleveland Cavaliers.

Jaylen Brown skoraði 32 stig og Derrick White hélt áfram að spila mjög vel og var með sjö þrista og alls 25 stig. Jayson Tatum bætti síðan við 18 stigum og 11 fráköstum.

Donovan Mitchell var með 33 stig og 6 stoðsendingar fyrir Cavaliers en fékk ekki nógu mikla hjálp. Evan Mobley var með með 17 stig og 13 fráköst og Darius Garland skoraði 14 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×