Innlent

Geirvarta er ljótasta orð íslenskrar tungu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Forsprakkarnir eru nemar við Háskóla Íslands.
Forsprakkarnir eru nemar við Háskóla Íslands. Mynd/Daníel
Ljótasta orð íslenskrar tungu var afhjúpað í dag við hátíðlega athöfn, Hátíð ljóts og friðar, og er það orðið geirvarta sem bar sigur úr býtum.

Er þetta niðurstaða kosningar sem fram fór á Facebook-síðu sem auglýsti eftir Ljótasta orði íslenskrar tungu í kjölfar þess að hið fegursta var valið. Fjölmargar tillögur bárust en fimmtán orð voru valin í úrslit og gátu allir facebook-notendur kosið það ljótasta. Orðið geirvarta vann með 251 atkvæði. Þótti orðið undarlega samsett og hvimleitt að svo ljótt orð væri yfir svo undursamlegt fyrirbrigði. Önnur orð sem fengu góða kosningu voru legslímuflakk, líkþorn og mótþróaþrjóskuröskun.

Athöfnin fór fram klukkan þrjú í dag við staðinn þar sem reisa átti Hús íslenskra fræða. Aðstandendur verkefnisins, þeir Viktor Orri Valgarðsson og Garðar Þór Þorkelsson, nemar, kalla staðinn „holuna“. Þeir buðu menntamálaráðherra, forsætisráðherra og forseta að koma á verðlaunaafhendinguna en enginn þeirra sá sér fært að mæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×