Innlent

Kosningu á fegursta orðinu lýkur í kvöld

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Orðin 30 sem hægt er að velja á milli eru meðal annars: Agnarögn, bárujárn, bergmál, einstök, einurð, fiðringur, fyrirgefðu, gluggaveður, harðjaxl, hjarta, hljóð
Orðin 30 sem hægt er að velja á milli eru meðal annars: Agnarögn, bárujárn, bergmál, einstök, einurð, fiðringur, fyrirgefðu, gluggaveður, harðjaxl, hjarta, hljóð mynd/365
Kosningu um fegursta orð íslenskrar tungu lýkur á miðnætti í kvöld. Úrslitin í leitinni að fegursta orðinu verða kynnt annað kvöld.

Alls bárust 6400 orð inn vegna leitarinnar að fegursta orðinu. Á vefsíðu leitarinnar hefur verið hægt að kjósa á milli 30 orða sem voru valin af sérstökum starfshóp sem fór yfir allar tillögurnar sem bárust.

Orðin 30 sem hægt er að velja á milli eru: Agnarögn, bárujárn, bergmál, einstök, einurð, fiðringur, fyrirgefðu, gluggaveður, harðjaxl, hjarta, hljóð, hugfanginn, hughrif, ívaf, jæja, kotroskin, kraðak, ljósmóðir, mamma, núna, ratljóst, sakna, seigla, sindrandi, sjónauki, skúmaskot, spékoppar, ugla, velkominn og víðsýni.

Kosning um ljótasta orðið hefst í kvöld og ljótasta orðið verður kynnt 16. nóvember næstkomandi. Orðin sem hægt verður að velja á milli verða birt á Facebook-síðu leitarinnar.

Meðal orða sem hafa verið nefnd á síðunni hingað til eru orðin: Kjölfestufjárfestir, legslímuflakk, gengilbeina, bjúgverpill, safabóla, gardína, úlnliður, ófrísk, klobbi, hreðjar, slabb, hrogn og gifs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×