Innlent

Mikill skortur á tækjum í skólastofur - sjálfir keypt skjávarpa

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Grunnskólakennarar eru margir orðnir þreyttir á lélegum tækjabúnaði skólanna sem hefur verið að úreldast síðustu ár vegna sparnaðar. Dæmi eru um að kennarar hafi sjálfir keypt skjávarpa í kennslustofur vegna skorts á tækjum.

Á sama tíma og fregnir berast af tilraunaverkefnum í skólum þar sem nemendur hafa fengið spjaldtölvur til notkunar, standa kennarar í borginni margir frammi fyrir því að geta lítið nýtt sér tölvur við kennsluna, þar sem hluti af tækjabúnaði skólanna er orðinn úreltur. Reykjavíkurborgin hefur frá hruni sett mjög takmarkað fjármagn í tækjakaup.

Austurbæjarskóli hefur til að mynda engin ný tæki fengið frá borginni síðan árið 2008. Í skólanum er aðeins eitt tölvuver fyrir hátt í fimm hundruð nemendur. Elstu tölvurnar eru orðnar tíu ára gamlar.

„Ég myndi áætla að svona einn þriðji af heildarfjöldanum væri alveg úreltur," segir Ragnar Örn Jónsson, verkefnastjóri tölvumála í Austurbæjarskóla.

Hann segir slakan tækjakost skólans hafa áhrif á kennsluna.

„Kennarar eru orðnir mjög þreyttir á þessu ástandi. Það má segja að þeir bölvi á hverjum degi. Það er rætt um þetta á hverjum degi í skólanum," segir Ragnar.

Til að halda tölvuverinu gangandi þá hefur skólinn leitað til fyrirtækja og fengið frá þeim notaðar tölvur sem þau hafa verið að losa sig við. Um helmingurinn af tölvum skólans er þaðan kominn.

Þá eru aðeins fimm skjávarpar í skólanum öllum.

„Hér hefur verið það mikill skortur að kennarar hafa keypt sjávarpa til að nota sjálfir í kennslu," segir Ragnar.

Harpa Rut kennir nemendum á unglingastig skólans. Hún segist lítið geta nýtt sér tölvur við kennsluna. „Við erum ekkert að kenna með þessum aðferðum sem er verið að mæla með í dag. Maður nær ekki að hafa kennsluna eins fjölbreytta eins og annars væri."

Nemendur nái ekki á nýta sér það fjölbreytta efni sem í boði er á netinu.

„Þau geta verið eins og í sögunni að skoða seinni heimsstyrjöldina til dæmis hvað var að gera, taka test og færa til lönd. Þetta eru við enn bara að gera með liti og blað. Þó að árangurinn geti alveg orðið svipaður þá er þetta ekki eins spennandi og maður vildi hafa það," segir Harpa Rut að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×