Innlent

Rannsókn felld niður hjá sérstökum saksóknara

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Vátryggingafélag Íslands, eða VÍS.
Vátryggingafélag Íslands, eða VÍS.
Rannsókn sérstaks saksóknara á hendur Guðmundi Erni Gunnarssyni, fyrrverandi forstjóra VÍS, hefur verið felld niður og hann laus allra mála. Guðmundur hefur fengið sent bréf þar að lútandi frá embættinu.

Rannsóknin var hluti af málum tengdum Exista og sneri að lánveitingum VÍS á árunum 2007 til 2009.

Greindi embættið frá því á vordögum 2011 að grunur léki á um meint brot á auðgunarbrota hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum vátryggingafélagsins og brot á lögum um vátryggingastarfsemi. Málinu var vísað til embættisins með kæru frá Fjármálaeftirlitinu (FME).

Guðmundur Örn Gunnarsson
„Ég er ennþá að meta þetta, en mun skoða það alvarlega að leita réttar míns,“ segir Guðmundur Örn. Hann segir standa gagnrýni sem hann hafi á sínum tíma sett fram á málatilbúnaðinn. „Að mínu mati átti þetta aldrei að fara af stað með þeim hætti sem gert var.“

Þegar Guðmundur óskaði eftir því að láta af störfum á seinni hluta maímánaðar 2011, sagðist hann með því ekki fallast á aðfinnslur FME heldur vilja standa vörðu um hagsmuni tryggingafélagsins. 

Viku síðar var hann handtekinn og færður til yfirheyrslu, ásamt Lýði Guðmundssyni, sem var forstjóri Exista og Erlendi Hjaltasyni sem var annar forstjóra Exista. Yfirheyrslur yfir mönnunum stóðu daglangt og fram eftir kvöldi 31. maí 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×