Innlent

Stjórnlagaráð leggur til að kosningakerfinu verði bylt

Alþingiskosningar verða framvegis með töluvert breyttu sniði ef tillögur ráðsins verða að veruleika. Mynd/GVA
Alþingiskosningar verða framvegis með töluvert breyttu sniði ef tillögur ráðsins verða að veruleika. Mynd/GVA
Kjósendur munu geta valið frambjóðendur þvert á flokka og kjördæmi í alþingiskosningum verði róttækar tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á kosningakerfinu að veruleika. Þar er lagt til að atkvæðavægi skuli vera jafnt alls staðar á landinu.

C-nefnd stjórnlagaráðs, sem meðal annars hefur alþingiskosningar og kjördæmaskipan á sinni könnu, kynnti tillögur sínar um breytingar á kosningakerfinu á 12. fundi ráðsins í gær.

Þar er lagt til að hægt verði að bjóða sig fram til þings bæði einsamall og sem hluti af framboðslista. Kjósendur geti svo valið sér frambjóðendur þvert á listana.

Lagt er til að hin hefðbundna kjördæmaskipting heyri sögunni til, hins vegar verði hægt að kveða á um það í lögum að tiltekinn hluti þingsæta – þó aldrei meira en tveir fimmtu – verði bundnir kjördæmum, sem flest geti verið átta, en kjósendur geti eftir sem áður valið frambjóðendur þvert á kjördæmin. Þessari skipan verði ekki hægt að breyta nema með auknum meirihluta á Alþingi.

Í tillögunum er gert ráð fyrir því að bundið yrði í stjórnarskrá að atkvæðavægi yrði alltaf eins jafnt og unnt væri milli kjördæmi.

Þá er lagt til að Alþingi geti sett lög um lágmarkshlutfall kynja á þingi.

Nefndin hafði einnig til umfjöllunar atriði sem varða lýðræðislega þátttöku almennings og kemur með tillögur í þá veru.

Meðal þeirra er að þriðjungur þingmanna geti skotið samþykktum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá skuli einnig bera lög undir þjóðaratkvæði ef fimmtán prósent kosningabærra manna krefjast þess innan þriggja mánaða frá samþykkt þeirra. Atkvæðagreiðslan skuli þá fara fram innan árs frá samþykktinni.

Samkvæmt tillögunum yrðu þó ýmis lög ótæk í þjóðaratkvæði. Þannig væri ekki hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fjárlög og fjáraukalög, lög um skattamálefni og ríkisborgararétt og lög sem sett eru fram til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

stigur@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×