Innlent

40% vilja afsögn ráðherra

Brjánn Jónasson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, forystumenn stjórnarflokkanna, hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir hvernig haldið var á Icesave-málinu. Fréttablaðið/Vilhelm
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, forystumenn stjórnarflokkanna, hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir hvernig haldið var á Icesave-málinu. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjórir af hverjum tíu landsmönnum vilja að forystumenn stjórnarflokkanna segi af sér vegna niðurstöðu Icesave-málsins, samkvæmt niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls segjast 39,7 prósent þeirra sem afstöðu taka til spurningarinnar vilja að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segi af sér vegna niðurstöðu Icesave-málsins, en 60,3 prósent vilja að þau sitji áfram.

Mikill munur er á afstöðu landsmanna til málsins eftir stuðningi við stjórnmálaflokka. Þannig vill meirihluti stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að Jóhanna og Steingrímur víki. Afar fáir stuðningsmenn stjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar eru sama sinnis.

Við framkvæmd könnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var hringt þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki. Hringt var miðvikudaginn 30. janúar og fimmtudaginn 31. janúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Eiga forystumenn ríkisstjórnarflokkanna að segja af sér vegna niðurstöðu Icesave-málsins? Alls tóku 83,9 prósent þeirra sem tóku þátt afstöðu til spurningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×