Innlent

Heyrnarlausir geta loks talað í gemsa

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Samfélag heyrnarlausra á Stór-Reykjavíkursvæðinu á líklega eftir að liggja í gemsanum næstu dagana. Arnar Ægisson segir að samskiptin við eiginkonuna eigi eftir að batna til muna frá og með morgundeginum.

Arnar Ægisson er 27 ára gamall, faðir tveggja ára dóttur og starfsmaður á bílaverkstæði Heklu. Venjulegur ungur maður - nema að hann hefur eingöngu getað notað gemsann til að senda eiginkonu sinni, ættingjum og vinum SMS. En - frá og með klukkan níu í fyrramálið getur hann talað við konuna sína í gemsann. "Þegar við erum bæði komin með þessa síma, þá breytist heilmikið. Samskiptin verða miklu styttri, við getum talað beint saman á táknmáli og er mjög fljótlegt. Þetta verður miklu einfaldara með þriðju kynslóðinni," segir Arnar. Hann er ekki hræddur að launin étist upp í símakostnað, en myndsímtöl eru töluvert dýrari en talsímtöl. "Nei, nei, nei. Mér finnst mikilvægast að geta átt samskipti. Kostnaðurinn er seinni tíma vandamál."

Rætt hefur verið um þriðju kynslóðar gemsa í áraraðir en það er sum sé ekki fyrr en á morgun sem þessi tækni kemst í gagnið hér á Íslandi - og þá eingöngu á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Um sjö þúsund 3. kynslóðar símar eru hér á landi en meginkostur tækninnar er að hún flytur meiri gögn hraðar en hingað til. Sem þýðir að hægt er að horfa á sjónvarpið í gemsanum - og tala við fólk í mynd. Það getur nýst við ýmsar aðstæður. "Þú getur til dæmis beint símanum að mótornum á bílnum þínum og þá er einhver sem getur sagt þér hvað þú átt að gera."

 

 

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×