Innlent

Greinilega alvarlegir hnökrar á málsmeðferð á IMF-umsókn

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur frestað afgreiðslu á rúmlega tveggja milljarða dollara láni til Íslands um óákveðinn tíma að því er fram kemur í Financial Times í dag. Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, segir að greinilega séu alvarlegir hnökrar á málsmeðferðinni.

Financial Times hefur eftir einum af forstjórum Fitch Ratings að Ísland sé nú fast í lausu lofti. Landið þurfi augljóslega á nýju regluverki um peninga- og gjaldeyrismál að halda en þurfi aðstoð stjóðsins til þess. Frestunin kemur á sama tíma og ljóst er að íslenskum stjórnvöldum hefur ekki tekist að fá vilyrði fyrir þeirri upphæð sem þarf til að mæta áætlunum sjóðsins um fjárþörf Íslands.

Blaðið hefur eftir fulltrúa íslensku stjórnarinnar að Íslendinga bráðvanti 500 milljónir dollara. Þá hefur uppgjör og samkomulag um Icesave reikninga Landsbankans í Hollandi og Bretlandi ekki náðst og virðist það einnig tefja afgreiðslu sjóðsins á lánaumsókn Íslendinga.

Vaxandi reiði gætir nú einnig í Þýskalandi meðal viðskiptavina Kaupþings Edge sem óttast að hafa tapað öllu sínu fé. Talið er að þar eigi um 30 þúsund einstaklingar um sárt að binda og eru þeir farnir að krefjast aðgerða gegn Íslendingum.

Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, segir að greinilega séu alvarlegir hnökrar á málsmeðferð á umsókn Íslendinga inni í sjóðnum. Hann segir mikilvægt að upplýsa almenning betur um málið.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×