Innlent

Bjarni Ben vill að Alþingi endurskoði stjórnarskrána

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Í yfirlýsingu frá Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, hvetur hann til þess að Alþingi hefjist tafarlaust handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hann segir stjórnarskránna kveða á um að Alþingi eitt geti gert á henni breytingar og flokkurinn sé tilbúinn í umræður um auðlindaákvæði.

„Sjálfstæðisflokkurinn hvetur til þess að Alþingi hefjist nú þegar handa við endurskoðun stjórnarskrárinnar án frekari millileikja og kostnaðar fyrir almenning. Þar verði meðal annars rætt um auðlindaákvæði, þjóðaratkvæðagreiðslur, forsetaembættið, dómstólana og önnur atriði sem þarfnast skýringar og endurskoðunar," segir í yfirlýsingunni.

Bjarni segir að frá því ríkisstjórn Jóhönnu hafi tekið við völdum, fyrir tveimur árum upp á dag, hafi stjórnlagaþingið verið helsta baráttumál hennar. Umræðan hafi verið um formsatriði en ekki efnisleg atriði á Alþingi. Nú sé málið í uppnámi, eftir ákvörðun Hæstaréttar Íslands, og nánast aftur komið á byrjunarreit.

„Enn hefur enginn axlað pólitíska ábyrgð í málinu en forsætisráðherra hefur boðað til fundar í dag um samráð milli stjórnmálaflokkana um næstu skref," segir Bjarni.

Bjarni bendir á 79. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveður á um að Alþingi sjálft geti einungis breytt stjórnarskránni. „Hugmyndir um að Alþingi gefi þetta grundvallarhlutverk frá sér og skuldbindi sig til að hlíta tillögum til breytinga frá ráðgefandi þingi ganga því í berhögg við skýr ákvæði stjórnarskrárinnar. Ábyrgðin er hjá Alþingi og undir henni verður þingið að rísa."

„Staða málsins er því sú að ímynduð andstaða Sjálfstæðisflokksins við endurskoðun og umbætur er helsta réttlæting forsætisráðherra fyrir því að halda hugmyndinni um stjórnlagaþing til streitu."







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×