Innlent

Aug­lýsa eftir „eig­anda“ fjár­muna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Aníta Auðunsdóttir er lögmaður hjá Magna lögmenn.
Aníta Auðunsdóttir er lögmaður hjá Magna lögmenn. Vísir/Steingrímur Dúi

Skiptastjóri veit ekki hvað skal gera með fjármuni sem fundust í búi félags þar sem engin gögn eru til. Geri enginn tilkall til fjármunanna mun skiptastjórinn þurfa sjálfur að velja góðgerðarfélag sem fær peningana.

Upp er komin skrítin staða við slit lögmanns á búi Apótekarafélags Íslands. Verið er að slíta þessu rúmlega fimmtíu ára gamla félagi þar sem enginn er skráður í forsvari fyrir það en engin gögn finnast um félagið. Engin stofngögn, engin fundargögn, ekki neitt. Í búinu fundust fjármunir og þar sem engin gögn eru til um félagið, er óvíst hvað verður um þá.

„Við gripum þeirra aðgerða, því þetta er félag frá 1970, að kanna hvort einhver gögn, samþykktir, stofngögn eða annað myndi finnast á Þjóðskjalasafninu. Sú vinna bar ekki árangur og að þeirri ástæðu var ákveðið að birta áskorun í Lögbirtingablaðinu því einhver kann að hafa þessi gögn í fórum sér,“ segir Aníta.

Enda annars hjá góðgerðarfélagi

Hún segist aldrei hafa lent í svipaðri stöðu áður en finnist engin gögn um félagið er það undir henni komið að velja góðgerðafélag sem fjármunirnir renna til.

„Reglur ná utan um þetta, ef enginn gefur sig fram sem telur sig hafa tilkall til eigna félagsins á grundvelli samþykktar eða stofnsamnings þá verður sú leið farin með vísan til meginreglna félagaréttar að skiptastjóri hreinlega ákveði hvert fjármunir búsins renna við skiptalok,“ segir Aníta. 

Liggja mögulega ofan í skúffu

Hún vonast til þess að gögnin finnist.

„Mögulega liggja þau í skúffu einhvers staðar og það er það sem við erum að falast eftir með þessari áskorun, að einhver komi með gögn til okkar,“ segir Aníta. 

Að einhver opni rykuga skúffu og finni þetta?

„Já, akkúrat.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×