Innlent

Fatlaðar konur beittar kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi

Kristján Hjálmarsson skrifar
Konurnar þrettán lýsa ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir.
Konurnar þrettán lýsa ofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. mynd/getty

"Það er að rifjast upp þegar ég var einmitt unglingur, á gaggó árunum, þá var ég í strætó og þá fékk ég svona hendi upp í klofið sko, bara jafnaldri minn sko. En ég veit ekkert hvort hann gerði það af því að ég er fötluð eða hvort það var af því að þetta var bara fyndið en hann var eitthvað að sýna sig fyrir strákunum. Ég veit það ekki."

Svona lýsir fötluð kona því ofbeldi sem hún varð fyrir sem unglingur og sagt er frá í niðurstöðum nýrrar rannsóknar á ofbeldi gegn fötluðum konum sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið.

Skýrslan byggir á viðtölum við 13 fatlaðar konur sem höfðu reynslu af margháttuðu ofbeldi í æsku og á fullorðinsárum. Fram komu sögur af líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hendi fólks sem stóð þeim nærri og einnig var því lýst hvernig vinnulag á heimilum fyrir fatlað fólk vó að sjálfræði þeirra.

Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu er rannsóknin sögð veita mikilvæga innsýn í margbreytilegar birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðum konum, við hvers konar aðstæður það á sér stað og afleiðingarnar sem það hefur.

Rannsóknin var hluti af verkefni sem tilheyrir þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Markmiðið var að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og fjalla um muninn á því ofbeldi sem einstaklingar beita fatlaðar konur annars vegar og stofnanabundnu ofbeldi hins vegar. Einnig að gera grein fyrir því við hvers konar aðstæður ofbeldið á sér stað, afleiðingunum sem það hefur, hvernig staða fatlaðra kvenna í samfélaginu tengist hættunni á því að þær verði fyrir ofbeldi og loks að setja fram tillögur um hvernig fyrirbyggja megi ofbeldi gegn fötluðum konum.



Skýrsluhöfundar taka fram að sögur kvennanna eru ekki endilega dæmigerðar fyrir líf fatlaðra kvenna almennt. Því sé mikilvægt að samtímis sem lærdómur sé dreginn af reynslu kvennanna sé brýnt að varpa ekki rýrð á það sem vel er gert í starfi með fötluðu fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×