Innlent

Hallur ætlar ekki í mál við Jónas

Jakob Bjarnar skrifar
Jónas telur Hall hlekk í raðtengdu ógeði Framsóknarflokksins en Hallur segir Jónas alveg úti á túni.
Jónas telur Hall hlekk í raðtengdu ógeði Framsóknarflokksins en Hallur segir Jónas alveg úti á túni.
Hallur Magnússon, fyrrverandi sviðsstjóri þróunarsviðs Íbúðalánasjóðs, ætlar að höfða meiðyrðamál á hendur skýrsluhöfundum þeim sem settu saman skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um sjóðinn. Hann telur rangfærslur í skýrslunni miklar, og segist ekki hafa verið pólitískt ráðinn.

Hallur telur hins vegar ekki ástæðu til að fara í mál við Jónas Kristjánsson, sem virðist með skrifum sínum, í kjölfarið og í ljósi þessa; vera að biðja um mál á hendur sér:

"Af rannsóknarskýrslunni um Íbúðalánasjóð sjáum við raðtengt ógeð Framsóknar. Árni Magnússon ráðherra réði Guðmund Magnússon, fyrrum ráðherra, sem réði Hall Magnússon flokksgæðing,“ skrifar Jónas meðal annars um málefni Íbúðalánasjóðs undir fyrirsögninni Hringekja fáráðlinga.

„Í fyrsta lagi var það ekki Árni Magnússon heldur Páll Pétursson á Höllustöðum sem var félagsmálaráðherra þegar Guðmundur Bjarnason var ráðinn. Í öðru lagi var það stjórn íbúðalánasjóðs sem réði Guðmund Bjarnason, einróma, bæði fulltrúar stjórnar og stjórnarandstöðu alþingis. Í þriðja lagi, þá var það Gallup sem lagði til að ég yrði ráðinn. Metinn hæfastur úr hópi margra umsækjenda. Þannig að þetta heldur engu vatni.“

Hallur segir Jónas óborganlegan penna - nauðsynlegan - en stundum sé hann algerlega úti á túni. Hallur fluttist í haust til Noregs með fjölskyldu sína og unir þar hag sínum vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×