Innlent

Ráku konu í fæðingar­or­lofi og réðu aðra yngri

Árni Sæberg skrifar
Konan vann í einni verslana Mini Market.
Konan vann í einni verslana Mini Market. Facebook/Mini market

Pólsk kona kærði í mars síðasta árs ákvörðun verslunarkeðjunnar Mini Market ehf. um að segja henni upp störfum í fæðingarorlofi og í kjölfarið rifta ráðningarsamningi á uppsagnarfresti. Verslunin bar fyrir sig samdrátt í rekstri en konan benti á að engum öðrum starfsmanni hefði verið sagt upp og að yngri kona hefði verið ráðin í hennar stað. Kærunefnd jafnréttismála telur verslunina hafa brotið gegn lögum um jafna stöðu kynjanna með uppsögninni.

Í úrskurði kærunefndarinnar segir að konan hafi starfað í einni af fjórum verslunum Mini Market ehf. og að hún hafi átt fund með fyrirsvarsmanni fyrirtækisins í lok janúar árið 2022, þegar hún var í þann mund að ljúka fæðingarorlofi. 

Á fundinum hafi henni verið sagt upp störfum frá og með 6. febrúar sama árs með vísan til samdráttar í rekstri fyrirtækisins.

Uppsagnarfrestur hafi verið þrír mánuðir og síðasti starfsdagur konunnar 30. apríl sama árs. Konan hafi ekki mætt til vinnu að loknu fæðingarorlofi og lagt fram þrjú læknisvottorð fyrir tímabilið 6. febrúar til 15. mars 2022. Hinn 25. febrúar 2022 hafi konunni borist tölvupóstur frá Mini Market þar sem fram kom að konunni hefði verið sagt upp störfum 28. janúar 2022 en hún hefði ekki sinnt boðum um að mæta til vinnu. Í því fælist brotthlaup úr starfi og væri versluninni því nauðugur sá einn kostur að rifta ráðningarsamningnum fyrirvaralaust frá og með þeim degi og féllu launagreiðslur niður frá sama tíma.

Hélt einnig fram broti á lögum um jafna meðferð óháð þjóðerni

Þetta taldi konan hafa verið ólögmæta uppsögn og riftun með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, en í þeim segir að óheimilt sé að láta fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um uppsögn starfsmanna. 

Þá bar konan einnig fyrir sig ákvæði laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Hún sagði að hún hafi orðið fyrir mismunun vegna bágrar íslenskukunnáttu, fákunnáttu á réttindum sínum og þeirrar erfiðu stöðu sem hún var í sem fólst meðal annars í áhættumeðgöngu með tilheyrandi andlegum vandamálum sem verslunin hafi, misnotað til þess að greiða henni ekki þau laun sem hún átti rétt til. Taldi konan það engu máli skipta að á vinnustaðnum hafi eingöngu starfað fólk af sama þjóðerni og hún, enda séu þau skjöl sem málið snúist um öll á íslensku.

Báru fyrir sig samdrátt og að allir starfsmenn væru pólskir

Sem áður segir gaf Mini Market upp að ástæða uppsagnarinnar hafi verið samdráttur í rekstri. Konan taldi forsvarsmenn ekki hafa sýnt fram á slíkan samdrátt og benti á að yngri kona hafi verið ráðin í hennar stað og skömmu eftir starfslok hafi ný verslun verið opnuð.

Þá neitaði Mini Market að mismunað hafi verið gegn konunni á grundvelli þjóðernis hennar enda séu allir eigendur og starfsmenn fyrirtækisins pólskir og öll samskipti fari fram á pólsku.

Í niðurstöðum kærunefndarinnar segir að Mini Market hafi ekki nægilega sýnt fram á samdrátt í rekstri fyrirtækisins og því verði ekki talið að sýnt hafi verið fram á að aðrar ástæður en fæðingarorlof eða ástæður tengdar barnsburði hafi legið til grundvallar ákvörðun fyrirtækisins um að segja konunni upp störfum.

Þar sem uppsögnin hafi verið ólögmæt þurfi ekki að sýna fram á ólögmæti riftunar samningsins.

Hins vegar segir í niðurstöðum að í ljósi þess að fyrirsvarsmaður Mini Market og konan, sem og allir starfsmenn verslunarinnar, voru af sama þjóðernisuppruna þegar atvik málsins áttu sér stað verði ekki fallist á að konanhafi leitt líkur að því að þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á uppsögn hennar.

Úrskurðarorð nefndarinnar eru eftirfarandi: Kærði, Mini Market ehf., braut gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×