Innlent

Hraunið á um 330 metra í Suður­strandar­veg

Atli Ísleifsson skrifar
Hraunkanturinn sem nálgast nú Suðurstrandarveg.
Hraunkanturinn sem nálgast nú Suðurstrandarveg. Vísir/Vilhelm

Virkni í eldgosinu hefur verið nokkuð stöðug síðan seinnipartinn í gær. Það gýs á tveimur svæðum á gossprungunni í nokkrum gosopum, en svo virðist sem slökknað hafi í nyrstu gosopunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar. Þar segir að virkustu gígarnir séu sunnarlega á gossprungunni sem opnaðist á laugardagskvöld og frá þeim sé hraunrennsli til suðurs í átt að Suðurstrandarvegi. 

„Í morgun voru um 330 m frá hraunjaðrinum að veginum og hafði jaðarinn færst lítið áfram m.v. í gærkvöldi. Við athuganir á svæðinu í gærkvöldi virtist ekki vera mikil virkni eða hreyfing í hrauntungunni sem fór yfir Grindavíkurveg á aðfararnótt sunnudags.

Flatarmál hraunsins hefur verið metið 5,85 ferkílómetrar út frá gervitunglamyndum sem voru teknar kl. 14:56 í gær, 17. Mars. Í þessu mati á flatarmáli er meiri óvissa en mælingum sem byggðar eru á ljósmyndum úr flugi. Ef veðuraðstæður leyfa verður farið í mælingaflug yfir gosstöðvarnar síðar í dag sem gæfi nákvæmari tölur um flatarmál en einnig rúmmál hraunsins,“ segir í tilkynningunni. 

Veðurstofan

Ólíklegt að berist til höfuðborgarsvæðsins

Fram kemur að veðurspá fram eftir degi sé suðaustan- og austan 8-13 metrar á sekúndu gosstöðvunum en síðan hægari sunnan og suðvestanátt. 

„Gasmengun berst þá til norðvesturs og vesturs, en norðurs seinnipartinn. Talsverð óvissa er í styrk gasmengunar. Suðvestan 10-18 á morgun og mun gasmengunin þá fara til norðausturs. Ólíklegt er að gasmengun berist til Höfuðborgarsvæðisins vegna hvassviðris. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Lítil skjálftavirkni er í kvikuganginum á umbrotasvæðinu og reyndar á Reykjanesskaganum öllum. Aðeins örfáir litlir skjálftar. Hættumat verður uppfært seinna í dag.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×