Erlent

Simon Harris nýr leið­togi Fine Gael

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hann hafði áður gegnt embætti heilbrigðis- og háskólamálaráðherra.
Hann hafði áður gegnt embætti heilbrigðis- og háskólamálaráðherra. AP/Nick Bradshaw

Hinn 37 ára Simon Harris verður næsti leiðtogi hins írska flokks Fine Gael. Hann er því skrefinu nær því að verða yngsti forsætisráðherra, eða taoiseach eins og þeir kalla embættið á sínu gelíska máli, í sögu landsins.

Hann tekur við af Leo Varadkar sem hefur farið fyrir flokknum síðan 2017 en hét því að láta af störfum um leið og arftaki hans hafði verið valinn fyrr í vikunni. Leo hafði einnig gegnt embætti taoiseach tvisvar síðustu tvö kjörtímabil í ríkisstjórn Fine Gael, Fianna Fáil og Græningja.

Í þakkarræðu sinni sagði Simon að það væri „mesti heiður lífs míns að leiða þennan mikla flokk, okkar mikla flokk, Fine Gael.“

Hann þakkaði flokknum sínum og þeim sem hann kusu fyrir að treysta honum fyrir verkefninu og segist ætla að endurgjalda það traust sem honum var veitt með dugnaði.

„Með blóði, svita og tárum, allan liðlangan daginn, af ábyrgð og auðmýkt og kurteisi,“ segir hann og á væntanlega við um þá erfiðisvinnu sem hans bíður.

Simon Harris var sá eini sem bauð sig fram í embættið og ætlar BBC að það hafi verið vegna þess hve líklegur hann væri til þess að bera sigur úr býtum í kosningunum. Hann hefur áður gegnt embætti háskólaráðherra og var talinn sigurstranglegastur jafnvel áður en opnað var fyrir tilnefningar.

Hann settist fyrst á Dáil, þing þeirra Íra, aðeins 24 ára gamall fyrir rúmum áratugi síðar. Aðeins fimm árum síðar settist hann í ráðherrastól í fyrsta sinnið og tók við embætti heilbrigðisráðherra árið 2016. Það var í hans ráðherratíð sem bann við þungunarrofi var afnumið og hann sá um fyrstu viðbrögð landsins við faraldri kórónuveirunnar árið 2020.


Tengdar fréttir

Vara­dkar hættir sem for­sætis­ráð­herra

Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, mun láta af embætti formanns Fine Gael og láta af embætti forsætisráðherra um leið og arftaki hans á formannstól hefur verið valinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×