Erlent

Fjórir menn fyrir dómara vegna hryðju­verkanna

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Einn hinna grunuðu var sýnilega lemstraður í dómssal í dag.
Einn hinna grunuðu var sýnilega lemstraður í dómssal í dag. AP/Alexander Zemlianichenko

Fjórir menn hafa verið leiddir fyrir dómara vegna aðildar sinnar að hryðjuverkaárásunum í nágrenni Moskvu á föstudagskvöldið. Tveir þeirra játuðu skýlaust að hafa framið voðaverkin. 137 manns létu lífið þegar hópur manna hófu skothríð í Crocus City-tónleikahöllinni og meira en 150 særðust.

Fjölmiðill á vegum Ríkis íslams hefur birt myndbönd af árásinni sem tekin voru upp af árásarmönnunum sjálfum en Khorasan-hópur hryðjuverkasamtakanna segjast hafa borið ábyrgð á árásunum. Pútín hefur sakað Úkraínumenn um að hafa komið að árásunum en þeir þvertaka fyrir það. 

Þeir tveir sem játað hafa aðild sína heita Saidakrami Murodalii Rachabalizoda og Dalerdjon Barotovich Mirzoyev og verða kærðir fyrir „hryðjuverkaárás framda af hópi einstaklinga sem olli dauða manneskju“ samkvæmt upplýsingum Guardian. Þeir hafa verið úrskurðaðir í tveggja mánaða gæsluvarðhald.

Rússnesk yfirvöld hafa birt myndband sem sýnir mennina vera borna inn í dómssal handjárnaða. Einn hinna grunuðu var leiddur inn með bundið fyrir augun en þegar augnbindið var fjarlægt sást að hann var með stórt glóðurauga.

Lýst var yfir þjóðarsorgardegi í dag vegna árásarinnar sem er sú mannskæðasta í landinu í tvo áratugi. Þjóðir heimsins hafa vottað rússnesku þjóðinni samúð sína og sendiráð Bandaríkjanna, Bretlands og Hollands í Moskvu flögguðu í hálfa stöng.


Tengdar fréttir

ISIS birtir hryllingsmyndbönd af árásinni

Íslamska ríkið birti í dag ný myndbönd af hryðjuverkaárásinni í útjaðri Moskvuborgar sem átti sér stað á föstudagskvöld. 133 létust en myndböndin staðfesta fyrri yfirlýsingu íslamska ríkisins þar sem ábyrgð á árásinni var lýst yfir. Rússar hafa aftur á móti bendlað Úkraínumenn við árásina.

Sakar Úkraínu um að hafa hjálpað árásarmönnunum

Valdimír Pútín Rússlandsforseti hefur ávarpað rússnesku þjóðina í fyrsta skipti frá því að hryðjuverkamenn gerðu árás á tónleikahöll í nágrenni Moskvu. Fleiri en hundrað manns létu lífið. Í ávarpinu sakar hann Úkraínumenn um að hafa hjálpað árásarmönnunum að komast yfir landamæri Rússlands og Úkraínu að árásinni lokinni. 

ISIS lýsir yfir ábyrgð á árásinni í Moskvu

Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni í Moskvu í kvöld. Níutíu og þrír eru sagðir látnir og rúmlega hundrað eru særðir, eftir að hópur þungvopnaðra manna gekk inn í Crocus-tónleikahöllina og skaut þar á fólk af handahófi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×