Erlent

Þeir sem fóru í ána taldir látnir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ýmsum spurningum er enn ósvarað varðandi það hvernig skipið lenti á brúnni en það sendi út neyðarkall áður en slysið átti sér stað.
Ýmsum spurningum er enn ósvarað varðandi það hvernig skipið lenti á brúnni en það sendi út neyðarkall áður en slysið átti sér stað. Getty/Kevin Dietsch

Lögregluyfirvöld í Maryland í Bandaríkjunum segja einstaklingana sex sem leitað var í gær eftir að Francis Scott Key brúin í Baltimore hrundi í gær séu nú taldir látnir.

Samkvæmt yfirvöldum lentu bifreiðar og átta verkamenn í Patapsco ánni. Tveimur var bjargað en að sögn Jeffrey Pritzker, framkvæmdastjóra hjá Brawner Builders, er gert ráð fyrir að hinir sex séu látnir þar sem áin sé djúp og langt síðan slysið átti sér stað.

Pritzker segir verkamennina hafa verið að vinna á miðri brúnni þegar hún hrundi ofan í ána.

Kafarar munu leita að líkamsleifum látnu þegar aðstæður leyfa.

„Þetta var algjörlega ófyrirsjáanlegt,“ segir Pritzker. „Við vitum ekki hvað annað við getum sagt. Við leggjum mikið upp úr öryggi og erum með keilur og spjöld og ljós og tálma og eftirlit. En við sáum það ekki fyrir að brúin myndi hrynja.“

Slysið átti sér stað þegar skipið Dali sigldi á brúna. Tuttugu og tveir voru um borð og björguðust allir.

Wes Moore, ríkisstjóri Maryland, segir brúna, sem var byggð árið 1977, hafa verið í góðu lagi en sömu sögu virðist ekki endilgea að segja af skipinu, sem fékk athugasemdir í skoðun í kjölfar annars slyss í Antwerpen í Belgíu árið 2016.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í gær að svo virtist sem um væri að ræða hræðilegt slys. Hét hann því að ríkið myndi fjármagna endurbyggingu brúarinnar og sagðist myndu heimsækja Baltimore á næstunni.

Spurður að því hvort skipafélagið ætti ekki að bera kostnaðinn sagði forsetinn að það yrði skoðað en menn myndu ekki bíða eftir niðurstöðu heldur ráðast strax í framkvæmdir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×