Fótbolti

Fimmtu undanúrslitin á sjö árum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mayra Ramírez og Guro Reiten fagna marki kvöldsins.
Mayra Ramírez og Guro Reiten fagna marki kvöldsins. Getty

Chelsea komst í kvöld í undanúrslit Meistaradeildar kvenna í fótbolta eftir jafntefli við Ajax í Lundúnum.

Hin kólumbíska Mayra Ramírez skoraði mark Chelsea en Chasity Grant fyrir Ajax í 1-1 jafntefli liðanna í kvöld.

Chelsea hafði unnið fyrri undanúrslitaleik liðanna 3-0 og því öruggt áfram í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Þetta er í fimmta sinn á sjö árum sem Chelsea kemst svo langt.

Emma Hayes, þjálfari Chelsea, hættir í starfi til að taka við bandaríska landsliðinu í sumar en vonast eflaust til að ná loksins að vinna þann stóra með liðinu áður en hún yfirgefur félagið.

Hayes hefur stýrt Chelsea til sex deildartitla og fimm bikartitla frá því að hún tók við liðinu árið 2012 en Meistaradeildartitillinn yrði að líkindum fullkomna leiðin til að kveðja félagið.

Á morgun kemur í ljós hvort ríkjandi meistarar Barcelona eða Brann frá Noregi mæti Chelsea í undanúrslitum. Barcelona vann fyrri leik liðanna 2-1 í Noregi og er því með forystuna fyrir heimaleikinn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×