Innlent

Ís­land að tapa í slagnum um ferða­menn

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir neikvæð teikn á lofti í ferðaþjónustu.
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir neikvæð teikn á lofti í ferðaþjónustu. Vísir

Þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað um fjórðung síðustu tólf mánuði hefur orðið samdráttur í fjölda gistinótta og meðaleyðslu ferðamanna að sögn framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta geti haft margvísleg neikvæð áhrif á þjóðarbúið. Mikilvægt sé að Íslandsstofa hefji aftur markaðssetningu á landinu.

Í nýrri samantekt Ferðamálastofu um lykiltölur í ferðaþjónustu kemur fram að heildarfjöldi ferðamanna hér á landi síðustu tólf mánuði hafi aukist um tæplega tuttugu og fimm prósent. Til samanburðar var fjölgunin hundrað og tuttugu prósent árið á undan. Þá hefur herbergjanýting dregist saman á öllu landinu síðustu mánuði. 

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka í ferðaþjónustu segir ýmis neikvæð teikn á lofti í greininni.

„Það er áhyggjuefni að þótt að við sjáum fjölda ferðamanna aukast á fyrstu mánuðum ársins þá er gistinóttum að fækka og minni verðmæti að skila sér í þjóðarbúið en áður.  Hver ferðamaður er að stoppa skemur,  gistir færri nætur og eyðir minna en áður.  Þetta er þróun sem við viljum alls ekki sjá,“ segir Jóhannes.

Ýmsar ástæður séu fyrir þessu. 

„Við erum orðin dýrari áfangastaður en margir áfangastaðir í kringum okkur, við erum með þrálátari verðbólgu en önnur lönd og hærri vexti. Þá höfum við tapað niður forskoti sem við höfðum í markaðssetningu á landinu en stjórnvöld hættu að leggja sérstakt fé í neytendamarkaðssetningu á Íslandi árið 2022 og það hefur mikil áhrif. Á sama tíma hefur verið lögð aukin áhersla á markaðssetningu í öðrum löndum,“ segir hann. 

Jóhannes segir mikilvægt að snúa þessu við. 

„Ef við viljum fá betur borgandi ferðamenn til landsins eins og stjórnmálamenn benda stundum á, þá þarf að  hafa stöðugar markaðsherferðir í gangi hjá Íslandsstofu sem kynna landið en ekki þessi sífelldu  átaksverkefni eins og reyndin hefur verið undanfarið,“ segir Jóhannes að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×