Tíska og hönnun

Kemur beint frá París með vistvæna tísku­strauma

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ása Bríet kemur til landsins fyrir HönnunarMars og sýnir hönnun sína.
Ása Bríet kemur til landsins fyrir HönnunarMars og sýnir hönnun sína. Aðsend

„Markmið mitt er að geta fært reynsluna mína inn í framtíðina með von um betri og sjálfbærari leiðir til að búa til klæðnað,“ segir fata-og textílhönnuðurinn Ása Bríet Brattaberg. Hún hefur verið að gera öfluga hluti í tískuheiminum úti og segist með námi sínu og reynslu hafa aflað sér framúrskarandi tæknilegrar og skapandi þekkingar.

Ása Bríet kemur frá Íslandi og Færeyjum og tekur þátt í viðburðinum Young Talents of FashionDesign á HönnunarMars. Viðburðurinn opnar 24. apríl í Landsbankanum.

Grunnnám í London og meistaranám í París

Ása Bríet hefur komið víða að og meðal annars verið búsett í London og París.

„Ég útskrifaðist með sveinspróf í kjólasaum frá Tækniskólanum í Reykjavík árið 2016 og hélt þaðan beint áfram í Myndlistaskólann í Reykjavík í grunnnám í textíl.“ 

Hún fluttist síðan til London árið 2019 og lagði stund á fatahönnun við Central Saint Martins

„Ég útskrifaðist þaðan árið 2023 með BA í kvennafatnaði eða Womenswear. Í dag stunda ég meistaranám í fatahönnun með sérhæfingu í prjóni í París við Institut Français de la Mode

Ég hef aflað mér framúrskarandi tæknilegrar og skapandi þekkingar á ólíku handverki til þess að dýpka þekkingu mína í því fagi sem ég hef ástríðu fyrir, fatahönnun.

Á HönnunarMars er ég svo að taka þátt í samsýningu í samstarfi með Landsbankanum ásamt sex öðrum hæfileikaríkum og upprennandi fatahönnuðum.“

Ása Bríet fer einstakar leiðir í hönnun sinni. Aðsend

Handverk fortíðarinnar á nýstárlegan máta

Ása Bríet kemur til með að sýna tvær flíkur úr útskrifarverkefni sínu frá Central Saint Martins.

„Með útskriftarlínu minni er ég að rannsaka handverk fortíðarinnar og koma henni í nútíð þar sem ég nálgast aðferðir í textíl- og í sníðagerð á nýstárlegan máta.

Markmið mitt er að geta fært reynsluna mína inn í framtíðina með von um betri og sjálfbærari leiðir til að búa til klæðnað. Það eru gæði í þeim tímaleysishreyfingum sem handverkið gefur manni og ég veiti huganum og umhverfinu athygli.“

Ása Bríet klæðist hér útsaumuðum kjól úr útskrifarlínu sinni.Aðsend

Báðar flíkurnar sem Ása Bríet sýnir í Landsbankanum eru skúlptúrar. Innblásturinn sækir hún í gamlar minningar frá Færeyjum. 

„Amma mín í Færeyjum er með rosalega fallegan blómagarð, ég á þessa minningu um að koma heim seint um kvöld þar sem að blómin hurfu öll inn í kolniðamyrkrið. 

Með fíngerðum svörtum penna byrjaði ég að endurframkalla þessa mynd sem ég sá af garðinum með línuteikningu. Teikningin varð að endalausri línu í formi blóma.

Skúlptúrinn er gerður úr bambus prikum sem ég vafði saman með silki og ullarbandi og þræddi saman í sitt form. Ég saumaði svo út hvert einasta blóm með silkiþræði á uppleysanlegt efni.“

Flíkur sem skúlptúrar og gjörningur

Önnur flíkin sem verður til sýnis á gjörningi mun fara fram á milli klukkan 17:00 og 19:00 laugardaginn 27. apríl í Landsbankahúsinu.

„Það er pils sem er gert úr 500 þráðum. Kljásteinavefstól veitti mér innblástur en frá upphafi vestrænna sögu og fram á miðaldir var sú tegund vefstóla notuð. Þræðirnir eru þræddir í kringum krínólín og festir í leirsteina sem ég handmótaði sjálf.

Jakkinn er í formi íslenska skautbúningsins, ofinn í spillilausa (e. zero-waste) vefnaðartækni þar sem ég vef jakkann inn í sitt snið. Efnið er úr silki, rifið niður og ég leyfi vefnaði efnisins að losna frá uppistöðu sinni.“

Sömuleiðis verður Ása Bríet með flíkur úr útskrifarlínu sinni til sýnis á samsýningunni Innsýni sem er haldin í Reykjastræti 6 á Hafnartorgi.

„Ég er ótrúlega spennt að koma til landsins og fá að sýna handverkið mitt á HönnunarMars. Einnig er ég mjög spennt að hitta og kynnast hinum hönnuðunum sem munu sýna með mér. 

Við komum öll úr mismunandi áttum og með ólíka nálgun á fatahönnun sem verður mjög gaman að sjá saman á sýningu.“

HönnunarMars hefst næstkomandi miðvikudag en hér má nálgast dagskrána í heild sinni. 


Tengdar fréttir

„Smá há­vær án há­vaða, smá sexí á ó­væntan hátt“

Klæðskerinn, textílhönnuðurinn og fatahönnuðurinn Ása Bríet Brattaberg lærði fatahönnun í virta listaháskólanum Central Saint Martins í London og er nú nýflutt til Parísar þar sem hún stundar mastersnám í fatahönnun með sérþekkingu í prjóni. Ása Bríet hefur komið víða að í tískuheiminum en hún er viðmælandi í Tískutali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×