Íslenski boltinn

Glugginn að lokast – Ís­lands­meistari í KFA og Mál­fríður heim

Sindri Sverrisson skrifar
Þórður Ingason vann fjóra bikarmeistaratitla og tvo Íslandsmeistara með Víkingum en hefur nú fengið félagaskipti í KFA.
Þórður Ingason vann fjóra bikarmeistaratitla og tvo Íslandsmeistara með Víkingum en hefur nú fengið félagaskipti í KFA. vísir/Hulda Margrét

Félagaskiptaglugginn í íslenska fótboltanum lokast á miðnætti annað kvöld og því fer hver að verða síðastur að styrkja sitt lið fyrir sumarið.

Glugginn hefur verið opinn síðustu tólf vikur og sjálfsagt flest félög búin að ganga frá sínum málum, en enn er sólarhringur til stefnu. Glugginn opnast svo ekki aftur fyrr en 17. júlí.

Á meðal nýjustu félagaskipta má nefna að markvörðurinn Þórður Ingason, sem varð tvisvar Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari með Víkingi R., er genginn í raðir Knattspyrnufélags Austfjarða í 2. deild.

Annar ríkjandi Íslandsmeistari, Málfríður Anna Eiríksdóttir, hefur fengið félagaskipti heim í Val eftir dvöl í Danmörku í vetur. Nýr liðsfélagi hennar, Camryn Hartman, er einnig komin með félagaskipti fyrir næsta leik Vals sem er við Þrótt á laugardaginn.

Enski markahrókurinn Gary Martin er svo kominn í raðir Víkings Ólafsvík en hann kemur að láni frá Selfossi. Bæði lið leika í 2. deild í sumar.

Eins og fyrr segir lokast félagaskiptaglugginn á miðnætti annað kvöld og því gæti morgundagurinn orðið líflegur. Fyrir efstu deildirnar verður sumarglugginn svo opinn í fjórar vikur, eða frá 17. júlí til 13. ágúst, en fyrir Lengjudeild kvenna og 2. deild karla lokast sumarglugginn fyrr eða 31. júlí.

Félagaskiptagluggi í neðri deildunum er opinn frá 1. febrúar til 31. júlí. Þetta á við 2. deild kvenna, 3. deild karla, 4. deild karla, 5. deild karla og utandeild karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×