Innlent

Hækka laun varaborgarfulltrúa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Laun 1. varaborgarfulltrúa verða hækkuð. Mynd/ GVA.
Laun 1. varaborgarfulltrúa verða hækkuð. Mynd/ GVA.
Laun 1. varaborgarfulltrúa verða hækkuð frá og með 1. september síðastliðnum. Þá munu þeir fá greidd 70% af grunnlaunum borgarfulltrúa með sömu ákvæðum um álagsgreiðslum, skerðingum og starfsaðstöðu og áður giltu. Með þessu er fallið frá breytingum á kjörum og starfsaðstöðu fyrstu varaborgarfulltrua sem tóku gildi við upphaf þessa kjörtímabils um að fyrstu varaborgarfulltrúar fengju greitt fyrir störf sín með sama hætti og aðrir kjörnir fulltrúar en borgarfulltrúar. Tillaga um þetta var samþykkt á fundi forsætisnefndar borgarstjórnar á föstudag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, mótmælti tillögunni. Hún sagði í bókun sem hún lagði fram að launahagræðing hefði náðst með sanngjörnum hætti á síðasta ári. „Það vekur furðu að þrátt fyrir þá góðu samstöðu sem um þessar breytingar náðist, skuli meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar nú ákveða að hækka laun 1. varaborgarfulltrúa verulega," segir Hanna Birna í bókuninni. Hún tók þó fram að breytingin næði einungis til nokkurra aðila og upphæðin ekki há í samhengi hlutanna en aðgerðin væri táknræn um ranga forgangsröðun.

Borgarfulltrúarnir Björk Vihlemsdóttir, Sóley Tómasdóttir og Einar Örn Benediktsson sögðu þá að nefndum borgarinnar hafi fækkað í upphafi kjörtímabilsins og það kæmi til móts við kostnaðarauka. „Hefð er fyrir því að fyrstu varaborgarfulltrúar sinni miklu starfi, enda þurfa þeir ætið að vera til taks. Starfsskyldur þeirra hafa ekki breyst og því er ekki sanngjarnt að þeir falli út af föstum launum eins og áður hafði verið samþykkt," segir í bókun þremenninganna.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×