Innlent

Haldið sofandi í öndunarvél - með sár á brjósti, hálsi og kviðarholi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Rúmlega sextugur karlmaður liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir að honum var sýnt banatilræði á lögmannskrifstofu í dag. Hann hlaut sár á brjóst, háls og kviðarhol.

Það var á tíunda tímanum í morgun sem að lögregla fékk tilkynningu um að maður hefði komið á lögmannskrifstofu í Lágmúla, vopnaður hnífi, og veist að starfsmanni.

Maðurinn vildi fá að tala við einhvern sem hefði með innheimtumál að gera á skrifstofu Lagastoða. Lögmannskrifstofan sér um að innheimta eitt af lánum hans. Hann réðst síðan á starfsmann og stakk hann með hnífi nokkrum sinnum. Samstarfsfélagi hans kom honum til bjargar og skarst sá á fæti. Árásarmaðurinn var yfirbugaður og handtekinn á staðnum. Skrifstofunni var strax lokað af og rannsökuðu lögreglumenn vettvanginn. Lögregla segir manninn hvorki hafa verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Maðurinn sem ráðist var á er rúmlega sextugur. Hann var fluttur á slysadeild en strax var ljóst að hann þyrfit að gangast undir umfangsmikla aðgerð. Maðurinn var með sár á brjósti, hálsi og kviðarholi. Hann er nú á gjörgæsludeild Landspítalans þar sem honum er haldið sofandi.

Maðurinn var yfirheyrður í dag en lögð verður fram krafa um gæsluvarðahald yfir honum á morgun.

Á Vísi fyrr í dag var sagt frá því að maðurinn væri með mótórhjól á lánum frá SP-fjármögnun. Það mun ekki vera rétt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×