Innlent

Höfum aldrei náð markmiðunum

Freyr Bjarnason skrifar
Stefán Ingi segir að miklar framfarir hafi orðið í framkvæmd þróunarsamvinnu.
Stefán Ingi segir að miklar framfarir hafi orðið í framkvæmd þróunarsamvinnu.
Stjórnvöld hyggjast draga úr þróunaraðstoð á næsta ári um hundruð milljóna króna.

Á síðasta ári nam upphæðin sem lögð var í þróunaraðstoð rúmlega 3,2 milljörðum króna, sem voru 0,22 prósent af vergum þjóðartekjum Íslands. Markmið Sameinuðu þjóðanna er að iðnríkin verji 0,7 prósentum af þjóðartekjum í þágu þróunarríkja.

Framlög íslenskra stjórnvalda eru ýmist veitt í gegnum utanríkisráðuneytið eða Þróunarsamvinnustofnun Íslands, meðal annars til félagasamtaka, alþjóðastofnana, háskóla, íslensku friðargæslunnar og samstarfsríkja Þróunarsamvinnustofnunar.

Stjórnvöld styrkja alþjóðlegu samtökin Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, á hverju ári og í fyrra nam upphæðin um 130 milljónum króna. „Ísland hefur sett sér markmið um að auka þróunarsamvinnu í samræmi við það sem öll vestræn ríki hafa gert. Við höfum aldrei náð þeim markmiðum,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, aðspurður.

„Þeir peningar sem við sendum í þróunaraðstoð hafa verið á bilinu 0,2 til 0,3 prósent sem þýðir að 99,7 prósent af þjóðartekjum fara ekki í þróunaraðstoð. Það er ekkert rosalega stór hluti af þjóðartekjunum,“ segir hann og er hugsi yfir þróun mála.

Hann bætir við að miklar framfarir hafi verið á framkvæmd þróunarsamvinnu. „Það hefur náðst mjög mikill árangur, bæði af fjölhliða og tvíhliða þróunarsamvinnu sem Ísland hefur tekið þátt í. Á bak við þetta er fólk sem býr við sára neyð og þarf á hjálp að halda, þannig að þetta skiptir mjög miklu máli.“

Væntanlegar aðgerðir stjórnvalda eru ekki í samræmi við skoðanakönnun sem MMR gerði fyrir utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands fyrr á árinu. Samkvæmt henni vilja tæplega níutíu prósent landsmanna óbreytt eða aukin framlög til þróunarsamvinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×