Innlent

Ívari sleppt úr gæsluvarðhaldi

Ívar Guðjónsson var leiddur fyrir dómara á föstudag og úrskurðaður í vikulangt varðhald.
Ívar Guðjónsson var leiddur fyrir dómara á föstudag og úrskurðaður í vikulangt varðhald. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, var látinn laus úr gæsluvarðhaldi í gær. Yfirheyrslum yfir honum er lokið í bili og þess vegna taldi sérstakur saksóknari ekki þörf á að halda honum lengur á bak við lás og slá.

Héraðsdómur úrskurðaði Ívar í vikulangt varðhald á föstudaginn. Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri, var sama dag úrskurðaður í varðhald til 25. janúar. Hann situr enn inni. Þá hefur Halldór J. Kristjánsson, sem var bankastjóri við hlið Sigurjóns, verið úrskurðaður í farbann til 25. janúar.

Ívar og Sigurjón kærðu báðir gæsluvarðhaldsúrskurðina til Hæstaréttar. Veittur var frestur til dagsins í dag til að skila Hæstarétti greinargerðum. Í kjölfar þess mun Hæstiréttur í kjölfarið úrskurða um hvort Sigurjón skal sitja áfram inni. Halldór kærði ekki farbannsúrskurðinn, og sagði það alltaf hafa staðið til að dvelja á landinu eins lengi og saksóknari vildi.

Alls hafa um 40 manns verið yfirheyrðir vegna rannsóknar embættisins á málefnum Landsbankans síðan ráðist var í umfangsmiklar aðgerðir fyrir helgi með húsleitum og handtökum. Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, verður yfirheyrslum haldið áfram næstu daga og þá mun fjölga enn í hópnum.

Rannsóknin snýr að umfangsmikilli markaðsmisnotkun á árunum 2003 til 2008 og kaupum Landsbankans á verðlausu lánasafni dótturfélagsins í Lúxemborg. Skilasvik og umboðssvik eru meðal ætlaðra brota sakborninga. - sh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×