Innlent

Leggst gegn stuðningi borgarinnar við Dagsetur Hjálpræðishersins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Frá Dagsetri Hjálpræðishersins á Eyjaslóð.
Frá Dagsetri Hjálpræðishersins á Eyjaslóð. mynd/ valli.
Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar, lagðist gegn því á fundi ráðsins að borgin styddi við rekstur Hjálpræðishersins á dagsetri fyrir utangarðsmenn á Eyjaslóð í Reykjavík. Á fundi ráðsins þann 1. mars síðastliðinn voru kynntar tillögur að aukinni þjónusti við utangarðsfólk með svokölluðu færanlegu teymi borgarvarða, eflingu Dagseturs og samstarfi við Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands. Gert er ráð fyrir að þessi aukna þjónusta kosti borgina um 40 milljónir.

Þorleifur fagnaði þessari auknu þjónustu að undanskildu úrræði Hjálpræðishersins. „Það er þó miður að Reykjavíkurborg skuli jafnhliða þessari ákvörðun kjósa að beina utangarðsfólki í auknum mæli í Dagsetur á vegum gildishlaðinna lífsskoðunarsamtaka. Fulltrúi Vinstri grænna hefur ekkert við sjálfboðastarf Hjálpræðishersins að athuga en telur ekki ásættanlegt að verið sé að veita fjármagni og faglegri aðstoð af hálfu borgarinnar til úrræðis á þeirra vegum þegar aðrir valkostir eru ekki til staðar. Vandi flestra ef ekki allra sem teljast til utangarðsfólks er heilbrigðisvandi sem taka á sömu tökum og önnur heilbrigðisvandamál en ekki í anda trúboðasjúkraskýla liðinna alda," segir Þorleifur í bókun sem hann lagði fram.

Sjálfstæðismenn gera líka athugasemdir við tillögurnar og segja að þær þarfnist ítarlegri skoðunar. „Gera verður alvarlegar athugasemdir við málið. Í fyrsta lagi að engin formleg þarfagreining fór fram og því fráleitt að velferðarráð samþykki tillögurnar án ítarlegri skoðunar," segja sjálfstæðismenn í bókun sinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×